Sendiherra Bretlands á Íslandi Dr. Bryony Mathew, ásamt fríðum hóp heimsótti Matís 10. maí sl. Með henni í för voru fulltrúar Grimsby seafood cluster, Humber institute, Grimsby Fish Mecharnt Association og University of Lincoln’s – National Centre for Food Manufacturing. Þá var fulltrúum Landbúnaðarháskólans og Bændasamtakanna einnig boðið til fundarins.
Markmið heimsóknarinnar var að ræða mögulegt samstarf milli fyrirtækja og stofnanna beggja landa á sviði matvælaframleiðslu og tengdra greina. Grimsby og Humber svæðið er vagga sjávarútvegs í Bretlandi og Háskólinn í Lincoln er hvað fremstur stofnanna þar í landi á sviði rannsókna og nýsköpunar í landbúnaði og matvælavinnslu.
Bretland, og þá sér í lagi Grimsby svæðið, hefur um aldir verið háð innflutningi á fiski frá Íslandsmiðum, og að sama skapi hefur svæðið skipað stóran sess í útflutningi sjávarafurða frá Íslandi. Hið langa og farsæla samstarf þjóðanna skiptir yfirvöld landanna miklu máli og sjá þau tækifæri í að hlúa enn frekar að samvinnu á breiðum grundvelli. Því hafa stjórnvöld landanna undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði sjávarútvegs. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru tækifæri og áskoranir við að fylgja viljayfirlýsingunni eftir.
Innan Háskólans í Lincoln er starfræktur einskonar „tæknigarður“ fyrir rannsóknir og þróun matvæla. Tæknigarðurinn hefur á að skipa gífurlega sterkum innviðum og sérfræðiþekkingu á flestum sviðum matvælaframleiðslu. Má í því sambandi t.d. nefna sjálfvirkni (e. autimisation & robotics) í landbúnaði og annarri matvælavinnslu. Sköpuðust á fundinum gífurlega góðar umræður milli þátttakenda sem verður án efa fylgt eftir á komandi mánuðum.
Þökkum við Dr. Bryony Mathew og fylgdarliði kærlega fyrir komuna.