Fréttir

Sjávarþörungar vannýtt auðlind á Íslandi

„Íslensku sjávarþörungarnir eru vannýtt auðlind að minnsta kosti hér á Íslandi, en það er ýmislegt í gangi sem tengist þörungum og þeir koma víða við í okkar rannsóknum,“ segir Jón Trausti Kárason sérfræðingur en hann er einn þeirra sem tengjast þörungarannsóknum hjá Matís.

Jón Trausti segir að um 8 vísindamenn hjá Matís starfi öðru fremur að þörungarannsóknum þó fleiri tengist þeim verkefnum með einum eða öðrum hætti. Meðal nýlegra afurða sem byggja á þörungarannsóknum vísindamanna Matís eru húðvörur sem sprotafyrirtækið Marinox hefur sett á markað en þær innihalda lífvirk andoxunarefni sem eru unnin úr þangi og þykja sérstaklega góð fyrir húðina. Af öðrum afurðum sem eru væntanlegar á markað innan tíðar nefnir Jón Trausti meðal annars þörungaskyr og byggpasta sem er bætt með þörungum.

„Reyndar var það hópur nemenda sem var hjá okkur í fyrrasumar sem byrjaði þróun þörungaskyrsins og afurðin keppti fyrir Íslands hönd í Ecotrophelia, sem er nemendakeppni í vistvænni nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þetta gekk það vel að þróunarvinnunni var haldið áfram og núna er þörungaskyrið að koma á markað. Hér er á ferðinni matvara sem er skyr og þaramjöl í grunninn en bragðbætt með bláberjum og hunangi,“ segir Jón Trausti.

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason.

IS