Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan ehf

Ákveðið hefur verið að setja á stofn félag til að halda ráðstefnur um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs. Félagið á ekki að vera hagsmunasamtök einstakra hópa og á ekki að vinna að hagsmunagæslu, heldur tryggja uppbyggilega umræðu og vera hvetjandi til góðra verka.

Ákveðið hefur verið að stofna Sjávarútvegsráðstefnan ehf. Stofnfundur félagsins verður haldinn þann 19. febrúar klukkan 15:30 í Verbúðinni – Víkin, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, 101 Reykjavík. Allir þeir sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða eru hvattir til að gerast hluthafar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Hlutverk félagsins er að halda árlega sjávarútvegsráðstefnu og er tilgangur hennar að:

  • stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og
  • vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi.

Hugmyndin að sjávarútvegsráðstefnunni er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn. Í dag eru ýmsar ráðstefnur og fundir innan sjávarútvegsins en þá yfirleitt tengt einstökum félögum, samtökum eða efni.

Markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Allir er láta sig málefni sjávarútvegsins varða geta tekið þátt í stofnun félagsins og mætt á stofnfund. Þeir sem hafa áhuga að vera hluthafar en geta ekki mætt vinsamlega sendið tölvupóst til Guðbrands Sigurðssonar (gs@nyland.is) eða Valdimars Inga Gunnarssonar (valdimar@sjavarutvegur.is)

Sjávarútvegsráðstefnan 2010

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan verður með vefinn www.sjavarutvegsradstefnan.is þar sem hægt verður að sækja dagskrá og aðrar upplýsingar í framtíðinni. Til að tryggja að sem flestir geti sótt ráðstefnuna verða fengnir aðilar til að styrkja ráðstefnuna með að markmiði að halda þátttökugjaldi í hófi.

IS