Matvælastofnun og Fiskistofa fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla og láta sjómenn fá leiðbeiningar frá Matís um góða kælingu og rétta aflameðferð.
Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofa hafa nú hafið átak í að fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla. Fyrsta skrefið í að tryggja að íslenskar sjávarafurðir komist til neytenda sem hágæðavara er að sá afli sem komið er með að landi sé meðhöndlaður eins vel og kostur er. Þar gegnir góð og hröð kæling lykilhlutverki.
Af fyrstu mælingum virðist kæling vera betri en hún var í fyrra, meðalhiti allra mælinga er 2,4 gráður en í fyrra var meðalhitinn í júlí 5,3 gráður.
Eftirlitsmenn fiskistofu og MAST munu dreifa leiðbeiningum um kælingu og aflameðferð sem Matís ohf. hefur unnið. MAST vill hvetja alla sjómenn til að kynna sér þessar leiðbeiningar.
Eftirliti með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla mun halda áfram að fullum krafti í sumar og eru sjómenn hvattir til að byggja á þessari góðu byrjun og bæta kælingu og aflameðferð frekar.
Bæklingar og einblöðungar um þetta efni og aðra bæklinga og einblöðunga sem Matís hefur gefið út má finna hér.
- Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski (einblöðungur)
- Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski (bæklingur)
- Rétt aflameðferð / On board handling (íslenska / english)
Sjá nánar um átak MAST og Fiskistofu á vef Matvælastofnunar.