Innlendar matarhefðir og uppruni matvæla eru börnum víða óljós í dag þar sem tenging frá haga í maga er óskýrari en áður. Nærumhverfisneyslu þarf jafnframt að gera hærra undir höfði og kynda undir áhuga á nýtingu hráefna og náttúruafurða úr eigin umhverfi. Börnin eru framtíðin og búa að skemmtilegum drifkrafti nýsköpunar og heilsusamlegs lífsstíls í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni samfélaga heims. Verkefnið KRAKKAR KOKKA er hannað af Matís með stuðningi Matarauðs Íslands hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Verkefnið byggir á hugmyndinni um skemmtimennt og hefur þann tilgang að efla þekkingu og vitund barna um svæðisbundna íslenska frumframleiðslu matvæla og hina gjöfulu íslensku náttúru og tenginu þessa við fæðuöflun, í gegnum leik og menntun. Þá leggur verkefnið áherslu á umræðu um ábyrga neyslu þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni og þeim sem brauðfæða þjóðina, sjálfbærum framleiðsluaðferðum, aðbúnaði dýra og manna og umhverfissjónarmiðum.
Heilbrigði og velferð annars vegar og sjálfbærni hins vegar eru meðal hinna sex grunnþátta menntunar samkvæmt aðalnámskrám fyrir bæði grunnskóla og leikskóla. Samkvæmt aðalnámskránum snúast grunnþættirnir sex “…um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.” KRAKKAR KOKKA er hannað með það að sjónarmiði að grunn- og leikskólar geti á auðveldan og áhrifaríkan hátt í gegnum leik og menntun nýtt verkefnið sem eina leið til að ná þessum markmiðum.
Í stuttu máli felst framkvæmd verkefnisins í því að börnin fræðast um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, matarhefðir og auðlindir eigin svæðis. Þá fara börnin vettvangsferð til hráefnisöflunar í villta náttúruna og/eða til frumframleiðanda á svæðinu. Í framhaldi matreiða börnin úr hráefninu sem sótt var og neyta matarins að lokum. Hluti af verkefninu felst í því að viðkomandi skóli gerir stutt heimildarmyndband um framkvæmd þess, sem aðgengilegt verður öllum til fróðleiks á vefslóð Matís á youtube.com, en tilgangur þess er að börn um allt land geti fræðst á lifandi hátt um matarhefðir og auðlindir annarra landshluta með því að horfa á myndbönd annarra skóla. Börnin, með aðstoð kennara eða annarra, eiga þátt í að gera myndböndin sjálf með sínu lagi. Þannig felst hluti af verkefninu í því að börn uppfræða börn í gegnum skemmtimennt á miðli sem börn nýta mikið í dag, um mikilvæg málefni lífs og líðandi stundar nú og til framtíðar. Að verkefninu loknu svara börnin viðhorfskönnun um framgang verkefnisins, þar sem safnað verður upplýsingum um árangur þess.
Myndband Grunnskólans austan vatna í Skagafirði um framkvæmd verkefnisins má sjá hér: