Fréttir

Skiptir áhættumat máli fyrir verðmætasköpun í landbúnaði?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís vinnur nú að ýmsum verkefnum sem miða að aukinni verðmætasköpun í framleiðslu landbúnaðarafurða. Meðal annars hefur Matís átt í samstarfi við bændur um örslátrun, en þann 25. september sl. var 10 lömbum slátrað á bænum Birkihlíð, í samstarfi við Matís. Úrvinnsla niðurstaðna stendur yfir og verða þær birtar þegar þær liggja fyrir. Tímamælingar sem framkvæmdar voru á meðan á slátrun stóð benda til þess að möguleikar bænda til að skapa sér aukin verðmæti með örslátrun séu umtalsverðir.

Örugg matvæli eru grundvallaratriði

Grundvallaratriði matvælalöggjafar Evrópu (178/2002) er ábyrgð matvælaframleiðanda á því að markaðssetja ekki vöru sem er óörugg (grein 17). Áhættumat er síðan notað til að hægt sé að leggja mat öryggi matvæla og setja kröfur um eftirlit og eru ýmsar undanþáguheimildir innan evrópsku matvælalöggjafarinnar frá meginreglum um eftirlit, séu fyrir því gild rök m.t.t. áhættumats.

Vísindalegt mat á örverufræðilegri áhættu er undirstaða góðs áhættumats varðandi ferskar kjötvörur.  Niðurstöður úr mælingum á örverufræðilegu ástandi þess kjöts sem slátrað var að Birkihlíð sýnir að bændur geta svo sannarlega staðið vel að örslátrun, en allir skrokkar mældust vel undir þeim viðmiðum sem eiga við um sláturhús.

Tillaga Matís um fyrirkomulag örslátrunar.

Sjá nánar hér.

Einnig má skoða vefsíðu Matarlandslagsins hér, en þar er t.d. hægt að skoða upplýsingar um um þá 10 lambaskrokka sem var slátrað í Birkhlíð með því að fara inn á bændamarkaðinn á síðunni.