Skyndibitastaðurinn Kokkur á Höfn í Hornafirði hefur hafið sölu á humarsúpu í gegnum bílalúgu. Um er að ræða sælkerahumarsúpu sem unnin er úr staðbundnu hráefni. Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís og Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika.
Upplifun
Það er óneitanlega sérstök og sterk upplifun að kaupa jafn glæsilega vöru og sælkerahumarsúpu í bílalúgu á skyndibitastað. Til að auka enn á hughrifin er súpan framreidd í fallegum endurvinnanlegum umbúðum og með henni fylgir servíetta sem vísar til hins eina sanna rauðköflótta lautarferðadúks. Tréspjót með nýgrilluðum humri fylgir með súpunni.
Úrvalshráefni
Vörumerki Humarsúpunnar er skjaldarmerki, sem vísar til gæða vörunnar og þess að hún er frá höfuðstað humarsins á Íslandi. Í súpunni er eingöngu úrvalshráefni en undirstaðan er auðvitað hornfirskur humar.
Eldað hægt – Lykilatriði í humarsúpugerðinni er natni. Ekki minna en fullur vinnudagur fer í humarsúpugerðina þar sem hið eina sanna humarbragð er galdrað fram með hægri suðu í langan tíma undir ströngu eftirliti faglærðra matreiðslumanna.
Matarmenning
Humarsúpa Kokksins er einstakur hágæðaskyndibiti sem hefur sterka vísun í upprunann og umhverfið en er um leið sælkeravara á alþjóðlega vísu. Með vörunni er leitast við að kynna hina sterku humarhefð svæðisins. Þannig er hægt að upplifa sælkerasúpu sem myndi sóma sér á hvaða veitingastað sem er, á fljótlegan, ódýran og nýstárlegan hátt.
Samstarf Matís og Kokksins
Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís sem selur heildstæða ráðgjöf og aðgang að vöruþróunaraðstöðu til að umbreyta hugmyndum yfir í gæðamatvæli. Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika.
Saga Kokksins
Bræðurnir Jón Sölvi og Valgeir, opnuðu skyndibitastaðinn Kokkur með stæl í nóvember 2007 en þar eru allar vörur afgreiddar í gegnum bílalúgu. Það má segja að hugtakið „skyndibiti“ hafi við þetta öðlast nýja og innblásna merkingu en Jón Sölvi er þrautreyndur listakokkur sem hafði fram að þessu starfað við fínustu veitingastaði landsins. Að opna lítinn stað eins og Kokkur lýsir hugarfari Jóns fullkomlega. Það er ekki stærðin heldur gæðin og frumleikinn sem skipta máli í hans huga.
Á myndinni sést er Guðumundur H. Gunnarsson, deildarstjóri Matís á Höfn, fær sér humarsúpu „beint í bílinn.“
Frekari upplýsingar um verkefnið veita:
Valgeir Ólafsson (Annar eigandi Kokksins): 899-4430 , valgeir@ogsvo.is
Brynhildur Pálsdóttir (matarhönnuður): 849-9764, brynhildur.palsdottir@matis.is
Guðmundur Gunnarsson (deildarstjóri hjá Matís): 858-5046, ghg@matis.is