Fréttir

Skyndileg aukning í PCB efnum vegna hvalskurðar?

Vöktun á mengunarefnum í lífríki við strendur Íslands hefur farið fram síðan 1990. Verkefnið er unnið af Matís í samstarfi við Rannsóknastofu í Lyfja- og eiturefnafræði við HÍ og Hafrannsóknastofnun.

Verkefnið er fjármagnað af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er Umhverfisstofnun umsjónaraðili verkefnisins. Markmið verkefnisins er m.a. að fylgjast með styrk mengunarefna í kræklingi á 11 stöðum við strendur landsins og greina hvort breytingar verði á styrk efnanna. Vegna þess hve fjárhagsrammi vöktunarverkefnis er þröngur hefur ekki verið hægt að meta með tölfræðilegum aðferðum hvort greina megi aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land fyrr en nú. Árið 2011 fékkst styrkur úr Rannsóknarsjóði Rannís til að gera tölfræðilega greiningu á breytingu mengunar í Íslandshöfum.  Nú er búið að birta fyrstu vísindagreinina úr þessu rannsóknarverkefni „Spatial and temporal trends of contaminants in mussel sampled around the Icelandic coastline” sem birtist í Science og The Total Environment. http://dx.doi.org/10.1016/j.scitotenv.2013.03.042

Helstu niðurstöður vísindagreinarinnar

Greina mátti uppsprettur mengunar á nokkrum stöðum. Árið 2009 og 2010 mátti greina skyndilega aukningu  í þrávirku lífrænu efnunum DDE, transnonachlor og PCB við Hvalstöðina í Hvalfirði en árið 2009 hófst aftur hvalskurður við stöðina eftir langt hlé. Þekkt er að styrkur þrávirkra lífrænna efna er hár í hvölum og því líklegt að hvalskurðurinn hafi valdið þessarar hækkun við stöðina. Einnig mátti greina aukningu á þrávirkum efnum í Mjóafirði á Austfjörðum og er hugsanlegt að það sé vegna fiskeldis sem rekið var þar um tíma. Við Úlfsá í Skutulsfirði mældist bæði mun hærri styrkur af HCB og arsen en á hinum tíu stöðunum. Líklegt þykir að háan styrk HCB megi rekja til sorpbrennslunar Funa en ekki er vitað hver uppspretta arsens gæti verið. Sorpbrennslunni hefur nú verið lokað og sé hún orsök mengunar við Skutulsfjörð þá ætti áframhaldandi vöktun að sýna minnkandi styrk næstu árin.

Almennt hafði styrkur þrávirku lífrænu efnanna farið minnkandi á flestum vöktunarstöðunum á tímabilinu 1990-2010. Styrkur þrávirku lífrænu efnanna reyndist vera mun lægri hér við land samanborið við það sem mælst hefur í kræklingi við strendur Noregs, Bandaríkjanna og Kína.

Styrkur arsens, kvikasilfurs og sinks var nokkuð stöðugur yfir tímabilið en meiri sveiflur mátti greina í styrk kadmíums. Samaborðið við það sem greinst hefur í kræklingi við strendur Noregs, Bandaríkjanna og Kína, þá er styrkur kvikasilfurs og blýs mun lægri hér við land en styrkur kadmíum og sinks hefur hins vegar greinst í hærri styrk hérlendis. Ekki er vitað um neinar uppsprettur kadmíums hér við land og talið er að hærri styrkur þess hérlendis megi rekja til íslenska bergsins.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir fagstjóri hjá Matís.

IS