Fréttir

Skýr framtíðarsýn – miklir möguleikar

Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmiðin, eru 17 talsins. Hið níunda lýtur að uppbyggingu sterkra innviða, að stuðlað sé að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúð að nýsköpun. Stefnt er m.a. að því að endurbæta tæknigetu iðngreina til að ýta undir nýsköpun og fjölgun starfa við rannsóknir og þróun. Í þessu samhengi stefnir Ísland á að auka framlög opinbers- og einkaframtaks til rannsókna og þróunar í 3% af landsframleiðslu.

Ófá tækifæri felast í nýsköpun. Í samræmi við hina stefnumörkuðu ákvörðun, að leggja fremur áherslu á að auka virði sjávarfangs en að auka magn sjávarfangs hafa Íslendingar unnið að nýsköpun við nýtingu auðlinda tengdum vatni, en fjórtánda heimsmarkmiðið snýr að lífi í vatni. Með þróun sem byggir m.a. á innleiðingu rannsóknaniðurstaðna hafa framfarir átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Umbætur í vinnslu sem miða að aukinni nýtingu hráefna auka framboð á næringarríkum matvælum sem dregur úr freistingum að taka um of úr viðkvæmum stofnum.

Kennsla, fræðsla og vöndun verklags í allri virðiskeðju matvæla styður ábyrga neyslu sem hjálpað getur til við minnkun sóunar í samræmi við tólfta heimsmarkmiðið.

Nýliðun í atvinnugreinum má meta með fleiru en fjölda nýrra fyrirtækja. Taka má með í reikninginn nýja og öfluga, oft á tíðum vel menntaða, starfsmenn. Einnig endurnýjast atvinnugreinar að nokkru leyti þegar hæfileikaríkt fólk leggur stund á að þróa atvinnugreinar með nýjum sprotum. Í stað þess að keppa innbyrðis í hefðbundinni framleiðslu, eru tækifæri fólgin í því að skapa nýja hluti, hleypa nýjum straumum af stað út í samfélagið. Við erum giska góð í því sem við gerum, en við þurfum að gera meira. Við þekkjum veiðar og vinnslu bolfisks, okkar helstu uppsjávarfisktegunda og nokkurra skelfisktegunda. Þó enn sé margt sem við höfum ekki gengið úr skugga um sem snertir hráefnishlið virðiskeðju sjávarfangs, er lengra í land á markaðshlið keðjunnar, ekki síst þegar kemur að óhefðbundnum vörum, s.s. fæðubótarefnum. Greining á hvötum og áætlun um viðbragð við breytingum er varða viðhorf og væntingar neytenda á eftirsóknarverðum mörkuðum mæta oft afgangi þegar áherslan er á framleiðslu fremur en eftirspurn.

Atvinnulífið í landinu hefur hag af því að til staðar séu innviðir og þekking sem nýtist við þróun þess og til að takast á við og leysa úr áskorunum sem upp kunna að koma. Í viðleitni til að vera fært um að mæta þörfum atvinnulífsins hefur Matís vaxið ár frá ári, fremur en að takmarka umfang starfseminnar við fjárhæð þjónustusamnings félagsins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR). 

Rík áhersla hefur verið lögð á innlent og alþjóðlegt samstarf og sókn í rannsóknafjárfestingu sem nýst hefur í þróunarvinnu og hefur skilað m.a. nýjum tækjabúnaði, vörum og/eða stuðlað að aukinni hagkvæmni og hagræðingu í vinnslu sjávarfangs. 

Fjárhæðir eða hlutfall landsframleiðslu sem varið er til nýsköpunar eru ekki einu mælikvarðarnir sem hægt er að leggja á nýsköpun og þróun. Mikilvægt er að fyrir liggi að hverju sé stefnt og hvernig meta eigi það sem gert er. Sumir styðjast við mælikvarða sem tengjast þekktum viðfangsefnum vísindastarfs, s.s. fjölda birtra greina eða tilvitnana í þær greinar sem birst hafa á vegum viðkomandi án þess að slíkt tryggi hagnýtingu þekkingarinnar. Fjöldi verkefna sem unnið er að getur reynst mótdrægur mælikvarði hvar of mikil orka kann að fara í utan utanumhald fremur en vísindastarf.

Starfsmenn Matís  hafa tengt aukið útflutningsverðmæti, XDR fyrir hvert aflað kg úr sjó, við stofnun og starfsemi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs, eins og sjá má hér að ofan. Stuðningur þessara lykilsjóða við nýsköpunarverkefni hefur stuðlað að þróun virðiskeðju íslensks sjávarfangs. Markaðsaðstæður og aflasamsetning hafa jafnframt mikil áhrif á verðmætamyndun við veiðar og vinnslu sjávarfangs. Borið saman við fiskverðsvísitölu Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. FAO Fish Price Index) sem er birt reglulega í Food Outlook, má sjá vísbendingar um mun á þróun verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi og þróunar fiskverðs skv. FAO og til frekari glöggvunar er hér að ofan jafnframt dregin upp lína sem sýnir þróun útflutningsverðmæta færeysks sjávarútvegs. 
En er ástæða til að spyrja hvort við séum of værukær eða hvort við höfum dreift athyglinni of víða? Litið til hagtalna má sjá að verðmætaaukningin stígur ekki jafn hratt frá 2011 og á fyrstu árum í starfsemi áðurnefndra sjóða. Frekar má segja að flökt sé á útflutningsverðmæti íslensks afla á síðustu árum en vöxtur. Árið 2011 var hæstri fjárheimild veitt af fjárlögum í AVS. Á fjárlögum yfirstandandi árs er fjárheimild AVS innan við 44% af því sem mest var. Það er ekki tryggt að við getum búist við viðlíka fjölda af nýjungum í tengslum við íslenskan sjávarútveg á næstunni.

Ætla má að nú sé mögulegt að bæta um betur og auka verðmætasköpunina enn frekar, nýta það sem komið er sem vogarafl fyrir þróun til framtíðar. Rétt eins og við rifum íslenskan sjávarútveg upp frá því sem var árinu 2003, hvar segja má að stöðugleiki hafi einkennt útflutningsverðmæti aflaðra fiska, fram að því þegar verðmætaaukningar varð vart, er tækifæri til að gera enn betur en við höfum gert á nýliðnum árum. Því þó AVS hafi rýrnað hafa framlög til Tækniþróunarsjóðs og nýsköpunar í formi skattafrádráttar aukist. Það er undir hagaðilum í sjávarútvegi komið að nýta þau tækifæri.

Rétt eins og vogaraflið gerir kleift að hreyfa við hlutum umfram það sem hver og einn ræður óstuddur við má með samstarfi ná fram árangri í verðmætasköpun sem stuðlar að velmegun og velferð. Matís hefur nýtt fjármuni úr þjónustusamningi við ANR til að sækja fé til stórra verkefna í þágu þróunar íslensks atvinnulífs og samfélags. Undanfarin ár hefur Matís aflað 2,7 króna tekna úr samkeppnissjóðum og í beinni sölu á þjónustu á móti hverri krónu frá ANR. Vonandi er áður nefnt flökt útflutningsverðmæta ekki bein afleiðing kröfunnar um ábyrgan rekstur Matís og aukinnar umsýslu verkefna í kjölfar þeirrar áherslu að starfsmenn fjármagni fyrirtækið með mótun verkefna sem nýtast atvinnulífinu.

Innviðir atvinnulífsins geta hvatað þróun, séu þeir góðir en hamlað henni ef svo er ekki. Rekstur Matís hefur vakið athygli. Nú kanna færeysk stjórnvöld möguleika þess að koma á fót starfsemi þar í landi í líkingu við Matís. Séu menn sáttir við reynsluna af rekstri Matís væri ákjósanlegt að nýta drifkraftinn sem einkennt hefur starfsemina og endurspeglar tvö af gildum félagsins, sköpunarkraft og frumkvæði, í áframhaldandi samstarfi til að auka verðmætasköpun enn frekar. Þannig má stuðla að sjálfbærum vexti samfélaganna í landsbyggðunum hringinn í kringum landið í anda ellefta heimsmarkmiðsins.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri – Frumkvæði og fagmennska í íslenskum sjávarútvegi  – 16. febrúar

IS