Fréttir

Sókn á Snæfellsnesi – Matís opnar starfsstöð

Matís hefur tekið höndum saman með sveitarfélögum Snæfellsnesi og blásið til sóknar í matvælaframleiðslu á svæðinu. Fyrirtækið hefur ráðið tvo starfsmenn til starfa í nýrri starfsstöð fyrirtækisins á Snæfellsnesi og taka þeir til starfa á næstu dögum.

Um alllangt skeið hefur Matís litið til tækifæra á Snæfellsnesi enda eru mikli möguleikar á aukinni verðmætasköpun tengd matvælum við Breiðafjörðinn. Mikil gróska og metnaður einkennir mannlífið á Snæfellsnesi en bæði sveitarfélög og atvinnurekendur styðja framtakið. Matís vill styðja og vinna með heimamönnum að uppbyggingu á matvælaframleiðslu og tengdum atvinnuvegum á svæðinu, öllum aðilum til heilla.

Mikil tækifæri liggja í Breiðafirðinum. Sjávarútvegur er þar sterkur en auk þess liggja sóknarfæri í nýtingu á öðrum og stundum vannýttum hráefnum á svæðinu. Til dæmis felast miklir möguleikar í betri nýtingu á slógi, þara og þangi.
Eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu mun snúa að rannsóknum og hagnýtingu á lífvirkni hinna fjölbreyttu hráefna sem finnast á svæðinu. Vonir standa til að hægt sé að þróa verðmætar eiginlegar neytendavörur eða innihaldsefni í matvæli og aðrar vörur. Sem dæmi um slíkar vörur má nefna t.d. nefna þaraskyr sem þróað var af starfsmönnum Matís í samvinnu við aðila á svæðinu. Í skyrið, sem vakið hefur mikla athygli, er einmitt notaður marínkjarni úr Breiðafirðinum. Fleiri tækifæri liggja til framleiðslu almennrar matvæla, markfæðis og fæðubótarefna úr þessum virku hráefnum.

Starfsfólk Matís hlakkar til að takast á við ókomin verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum. Matvælaframleiðsla á svæðinu mun eflast sem mun leiða til aukins árangurs og aukinnar verðmætasköpunar í matvælaiðnaði á Snæfellsnesi, við Breiðafjörð og fyrir samfélagið allt.  

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís í síma 422-5000.

IS