Fyrirtækið Prokaria bauð starfsmönnum Rf að heimsækja fyrirtækið í dag til að kynna fyrir þeim starfsemina sem fram fer að Gylfaflöt í Grafarvogi, en eins og áður hefur komið fram hér á síðunni mun sérstakt fyrirtæki í eigu Rf fljótlega taka yfir erfðagreininga- og ensímsvið Prokaria.
Tilkynning um fyrirhugaða sameiningu birtist á fréttavef Rf fyrr í sumar og þar kom fram að nýja fyrirtækið muni áfram bera nafn Prokaria, enda hefur fyrirtækið byggt upp öflugar rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar á sviði erfðagreininga og ensímþróunar á undanförnum árum. Fyrirtækið er með þróunarsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki í matvælaiðnaði eins og Nestlé og Roquette.
Í heimsókninni í dag rakti Guðmundur Hreggviðsson Rannsóknastjóri Prokaria sögu fyrirtækisins og greindi frá helstu rannsóknum sem þar fara fram. Einnig fjallaði Sólveig Pétursdóttir, umsjónarmaður örverurannsókna frá helstu rannsóknum sem undir hennar svið heyrir og loks fjallaði Sigríður Hjörleifsdóttir um erfðarannsóknir á vegum Prokaria.
Eftir kynningu skoðaði starfsfólk Rf húsakynni Prokaria og þáði loks léttar veitingar.