Fréttir

Starfsmaður Matís ver doktorsverkefni sitt

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís, varði doktorsverkefni sitt við verkfræðideild Háskóla Íslands á föstudaginn, 18. janúar. Verkefnið, sem nefnist Vinnsluspá þorskafla, fjallar um hvernig hægt er að hámarka afrakstur fiskveiða.

Markmið verkefnisins var að safna gögnum um þorskveiðar og vinnslu fjögurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, greina þau á tölfræðilegan hátt og setja upp bestunarlíkön til að auðvelda stjórnun á veiðum og vinnslu þorsks á Íslandsmiðum. Gögnum um flakanýtingu, los og hringorma í þorski var safnað frá 2002 til 2006. Allar þessar breytur hafa veruleg áhrif á hagnað af þorskveiðum og vinnslu.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að afrakstur virðiskeðju þorsks geti verið aukinn með því að sækja þorskinn á ákveðin veiðisvæði og á ákveðnum tíma árs en niðurstöðurnar sýndu að flakanýting, los og hringormar í þorski eru m.a. háð veiðistaðsetningu og árstíma.

Samstarfsaðilar í doktorsverkefni Sveins voru: Samherji, Fisk Seafood, Vísir og Guðmundur Runólfsson hf. Grundarfirði.

IS