Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, meistaranemi í umhverfisfræði við Háskóla Íslands mun í dag, klukkan kl. 15:15 í stofu V-157 í VR2, verja meistararitgerð sína í umhverfis-og auðlindafræði. Meistararitgerðin ber nafnið Life Cycle Assessment on Icelandic cod product based on two different fishing methods.
Verkefni Aðalbjargar er unnið í samvinnu Matís, Verkfræðideildar Háskóla Íslands og sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf og Fisk Seafood hf. Í útdrættinum úr ritgerðinni kemur m.a. fram:
Vistferilgreining (LCA) gerir okkur kleift að fá heilstæða mynd af lífsferli vöru eða þjónustu. Í þessu MS verkefni er tekið fyrir og borið saman 1 kg af léttsöltuðu lausfrystu þorskflaki með roði og beini veiddu með botnvörpu annars vegar og á línu hins vegar. Upplýsingum var safnað frá tveimur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum FISK Seafood sem átti og rak ístogarann Hegranes SK og Vísi hf sem á og rekur línubátinn Kristínu ÞH. Gögnum var safnað frá vinnslustöðum beggja fyrirtækja, FISK Seafood á Sauðárkrók og Vísis hf á Þingeyri. Vörunni var svo fylgt frá vinnslu í gegnum flutninga til Sevilla á Spáni þar sem varan er seld. Helstu niðurstöður eru þær að þorskur veiddur í botnvörpu hefur umtalsvert meiri umhverfisáhrif innan allra þeirra umhverfisþátta sem tekið var tillit til. Mestu umhverfisáhrifin eru að finna innan fiskveiðanna sjálfra sem kemur til vegna olíunotkunar skipanna. Til að veiða 1 kg af því er samsvarar fullunninni afurð þá brennir fiskveiðiskipið með botnvörpuna 1,1 líter af olíu á meðan línuskip notar 0,36 lítra. Umtalsverð umhverfisáhrif er einnig að finna innan frystihúsanna þar sem að vinnslan fer fram sér í lagi vegna kælimiðla sem þar eru notaðir. Flutningur á afurðinni er einnig stór þáttur í umhverfisáhrifunum þar sem að afurðinni er keyrt kældri langar leiðir og flutt sjóleiðis í kældum gámum til Evrópu með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Reiknuð voru út svokölluð sótspor sem segja til um útblástur gróðurhúsategunda umreiknuð yfir í koltvísýringsígildi. Sótspor 1 kg þorsks sem veiddur er með botnvörpu eru 5,14 kg koltvísýringsígildi á meðan sótspor sama magns af línuþorski er 1,58 kg koltvísýringsígildi.