Matís á Akureyri (Matvælarannsóknir Íslands) hefur tekið í notkun myndgreinibúnað sem mun stórefla rannsóknir fyrirtækisins á svæðinu. Þegar hefur verið fjölgað um hálft stöðugildi og stefnt að því að fjölga um nokkur stöðugildi til viðbótar með frekari eflingu rannsókna á þessu sviði.
Myndgreinibúnaðurinn gefur möguleika á að rannsaka smásæja byggingu matvæla og tölfræðilegri úrvinnslu gagna. Búnaðurinn gerir Matís því mögulegt að efla rannsóknar- og þróunarstarf í þágu fyrirtækja í matvælaiðnaði. Má þar nefna rannsóknir á gæðum og eiginleikum matvæla og nýtingu þeirra, svo sem lambakjöts, mjólkurafurða og fisks. Búnaðurinn mun einnig nýtast við rannsóknir á ónæmiskerfi lúðu- og þorsklirfa á fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins. Þá verður hægt að efla enn frekar rannsóknir á eldisfiski og öðrum eldistegundum, svo sem áhrifum fóðurs á eiginleika afurða.
“Matís hefur lagt mikla áherslu á að styrkja rannsóknarstarf sitt á Akureyri og myndgreinibúnaðurinn er einn liður í því. Við sjáum fram á að fjölga um 2-3 stöðugildi ef okkur tekst að fullnýta búnaðinn í samvinnu við framleiðendur og fyrirtæki í matvælaiðnaði. Þá kemur búnaðurinn einnig til með að nýtast háskóla- og vísindasamfélaginu á Akureyri sem er í mikilli sókn,” segir Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri hjá Matís.
Starfsmenn hjá Matís á Akureyri eru 5 talsins en fyrirtækið sinnir matvælarannsóknum í samstarfi við Háskólann á Akureyri, aðrar stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi. Auk þess eru 4 nemendur á vegum Matís í meistaraverkefnum á Akureyri.
Matís tók til starfa um síðustu áramót en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, líftæknifyrirtækisins Prokaria og Iceprotein.