Stefnumót hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands, í samstarfi m.a. við Matís, þar sem vöruhönnuðum og bændum er teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki.
Rannsóknarverkefnið var þriggja mánaða ferli sem endurtekið var þrisvar sinnum á tímabilinu 2008–2011. Hugmyndir úr námskeiðinu voru valdar inn í rannsóknarverkefnið með það að markmiði að afhenda bændunum fullþróaða vöru sem tilbúin er til framleiðslu í lok verkefnisins.
Rannsóknarverkefnið byggðist á þverfaglegri samvinnu þar sem hönnunarteymið og býlið vinna með sérfræðingum Matís, matreiðslumeisturum og Innovit. Í ferlinu er mikið lagt upp úr því að skapa vörunni sterka sérstöðu og heildarupplifun.
Þær afurðir sem hafa verið þróaðar í rannsóknarhlutanum eru Rabarbarakaramella Rabarbíu (Langamýri á Skeiðum), Sláturtertan fyrir Möðrudal á Fjöllum, Skyrkonfekt Rjómabúsins á Erpsstöðum og Rúgbrauðsrúlluterta og snúðar fyrir Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Hönnunarstjórar Rannsóknarverkefnisins voru Brynhildur Pálsdóttir og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir. Verkefnisstjóri og ábyrgðarmaður var Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun.