Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur Matís ásamt Arnljóti Bjarka Bergsyni bjóða áhugamönnum um sjávarútveg í Bolungarvík til stefnumóts í verslun Olís í Bolungarvík kl. 10:00 miðvikudaginn 13. nóvember.
Smábátaflotinn er mikilvægur fyrir Íslenskan sjávarútveg og skilaði rúmlega 22 milljörðum króna aflaverðmæti á síðasta ári, en þorskur var um 70% verðmæta. Nálægð við fiskimiðin hafa styrkt stöðu Vestfjarða í útgerð smábáta en árangur dagróðrabáta, sérstaklega við Ísafjarðardjúp hefur verið ævintýri út af fyrir sig. Sterkur þorskstofn í framtíðinni mun enn frekar styrkja þessa útgerð og jafnframt verðmætasköpun á Vestfjörðum og þannig tekjur og lífsgæði íbúa. Hér gildir sem endranær að vanda þarf til verka við framleiðslu gæða vöru.
Til að halda forskoti Vestfirðinga má ekki slá slöku við rannsóknir og þróun framleiðslunnar til að þjóna viðskiptavinum sem best í framtíðinni. Enn er tækifæri til að bæta meðhöndlun á fiski sem kemur frá smábátum með bættri blóðgun, kælingu og hreinlæti. Krókaveiddur fiskur er orðinn krafa á mörgum mörkuðum sem gefur þessari framleiðslu markaðsforskot. Með bátum sem landa daglega er hægt að hafa fullkomna stjórn á ferskleika í vinnslu og nálægð við miðin hér á Vestfjörðum tryggja stöðugt framboð til framleiðslu og örugga afhendingu til viðskipavina. Umhverfismál og uppruni frá sjávarþorpi ásamt sjálfbærum veiðum munu skipta miklu máli í markaðssetningu sjávarafurða í framtíðinni.