Eitt viðamesta rannsóknaverkefni Matís á síðustu árum hefur snúist um síldarstofna í Norður-Atlantshafi.
Um er að ræða norrænt verkefni styrkt af Verkefnasjóði sjávarútvegsins og AG-Fisk hópi Norrænu ráherranefndarinnar. Ásamt Matís vinna að því Hafrannsóknastofnunin á Íslandi, stofnun hafrannsókna í Færeyjum, Háskólinn í Færeyjum, Síldarvinnslan í Neskaupstað, stofnun hafrannsókna í Bergen í Noregi og DTU Food í Lyngby í Danmörku.
Yfirskrift verkefnisins er Þverfagleg rannsókn á síldarstofnum í Norðaustur-Atlantshafi og er titillinn lýsandi um aðkomu Matís að verkefninu. Í því koma saman sérfræðingar á mismunandi fræðasviðum, t.d. erfðafræði, efnafræði, matvælafræði og verkfræði, svo fátt eitt sé nefnt.
Síldarstofnar á umræddu hafsvæði eru bæði svæðisbundnir en einnig flökkustofnar. Það þýðir að afli getur verið blandaður úr stofnum eftir svæðum og árstíma. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfis og erfða, segir vinnslufyrirtæki áhugasöm um að aflað verði frekari vitneskju um eðli stofnanna og hegðun þar sem vinnslueiginleikar síldarinnar geta verið mismunandi milli stofna. „Þetta er fjölþætt verkefni þar sem við erum að skoða fjölda stofneininga síldar í Norðaustur-Atlantshafi, beita erfðafræði til að ákvarða stofngerð, einnig hlut ólíkra stofneininga í veiði og tengja síðan erfðaupplýsingarnar við vinnslueiginleika og efnainnihald. Með því leitum við m.a. svara við spurningum um hvert sé hlutfall stofneininga í veiði, hvort mismunandi vinnslueiginleikar síldarinnar eru bundnir í stofngerð hennar eða hvort þar er um að ræða aðra þætti á borð við umhverfisaðstæður. Byggt á þessum upplýsingum geta vinnsluaðilar metið hverjir eiginleikar síldar eru eftir hafsvæði eða veiðitíma,“ segir Anna Kristín en vinna við verkefnið hófst árið 2009.
Fleiri uppsjávartegundir á þessu hafsvæði eru verðugt rannsóknaefni í sama tilgangi og nefnir Anna Kristín sem dæmi kolmunna, loðnu og makríl, sem á skömmum tíma er orðin mikilvæg tegund í sjávarafla Íslendinga. Ætlunin er því sú að þessi rannsókn leggi grunn að öðru og stærra Evrópuverkefni þar sem umræddir fiskistofnar, og jafnvel fleiri, verði rannsakaðir.