Fréttir

Streita laxfiska við dælingu

Streita laxfiska í eldi getur skipt miklu máli varðandi velferð, vöxt og viðgang þeirra, og getur einnig haft áhrif á gæði og geymsluþol afurða. Helsta ástæða laxadauða í sjóeldi er meðhöndlun gegn laxalús, sem getur dregið úr viðnámsþrótti fiska gegn sýkingum og kulda, ásamt því að draga úr vexti. Laxalúsin kostar norrænt laxeldi um 140 milljarða króna á ári og er því risavaxið vandamál fyrir atvinnugreinina.

Helsta ástæða neikvæðra áhrifa á meðhöndlun gegn lús er slæm meðferð við dælingu á laxinum. Mest er notast við vakúmdælur, sem valda fiskinum streitu og nokkrum áföllum; en við dælinguna er loftrými loftæmt sem dregur fiskinn upp í tank, sem síðan er skotið á þrýstilofti til að ýta honum á þann stað sem honum er ætlað að fara á. Þetta er gert bæði við lúsameðhöndlun og eins þegar fiski er dælt til slátrunar. Það getur tekið fisk langan tíma að jafna sig eftir meðhöndlunina og byrja að taka fóður aftur, og eins geta áföll fyrir slátrun valdið streitu sem rýrir gæði afurða.

Í ljósi þessa hafa framleiðendur dælubúnaða verið að leita nýrra leiða við dælingu laxfiska og hefur íslenska fyrirtækið Skaginn 3X verið að þróa svokallaða spíraldælu (Archimedesar dælu) sem lausn á þessu vandamáli. Dælan hefur hlotið nafnið ValuePump. Á haustmánuðum 2020 veitti Matvælasjóður fyrirtækinu Skaginn 3X, ásamt samstarfsaðilum, styrk til að þróa, smíða og prófa frumgerð af ValuePump. Frumgerðin var tilbúin til prófana snemma árs 2022 og voru þá gerðar samanburðarmælingar á virkni ValuePump og hefðbundinnar vakúmdælu, sem í dag er notuð við dælingu á lifandi laxi til slátrunar og við meðhöndlun við og í kvíum. Við samanburðarmælingarnar var notast við DST nema frá Stjörnu-Odda sem skrá hitastig og hjartslátt í fiski, auk þess sem streituhormónið Kortisól var mælt í blóði. Samanburðartilraunirnar fóru fram í aðstöðu Hafrannsóknarstofnunnar á Reykjanesi undir stjórn sérfræðinga stofnunarinnar, Stjörnu-Odda og Matís.

Frumgerð ValuePump við hlið vakúmdælunnar sem notuð var við samanburðarrannsóknirnar
Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunnar við dælingartilraunirnar

Niðurstöður samanburðartilrauna sýndu marktækan mun á milli hópa í kjölfar dælingar. Hjartsláttur hækkaði mikið við dælingu en ValuePump hópurinn var fljótari að jafna sig og ná aftur grunngildi. Dæling með vakúmdælu hafði mun meiri langvarandi streituáhrif en tilraun með hámarksáreiti þar sem fiskurinn spriklaði á þurru.  Mikill sjónrænn munur var einnig á hópunum eftir dælutegundum, þar sem fiskar sem dælt var með vakúmdælu komu oft slasaðir eða jafnvel dauðir úr dælunni, syntu á hlið eða á hvolfi klukkutímum eftir dælingu.  Fiskur sem dælt var með ValuePump varð hins vegar ekki fyrir neinu sjáanlegu hnjaski við dælinguna og virtist vel á sig komin að henni lokinni.

Niðurstöður samanburðartilraunanna verða að teljast mjög jákvæðar, þar sem þær benda til þess að ValuePump geti dregið verulega úr streitu laxfiska við meðhöndlun. Gæti því þessi íslenska nýsköpun haft viðverandi áhrif á velferð og arðsemi í laxeldi.

Þátttakendur verkefnisins vilja þakka Matvælasjóð fyrir að styrkja verkefnið.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér

Frekari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson gunnar@matis.is

IS