Fréttir

Svínakjöt: Nákvæmari niðurstöður með rafrænu mati

Nú hafa skapast forsendur til þess að innleiða rafrænt mat á svínaskrokkum í sláturhúsum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um niðurstöður mælinga á kjöthlutfalli svínakjöts. Með rafrænu mati, sem mælir hlutfall kjöts á svínaskrokkum, fást nákvæmari niðurstöður en hægt hefur verið að birta hingað til. Það auðveldar öll samskipti á milli sláturhúsa og bænda sem og sláturhúsa og kjötvinnslna þar sem verðlagning og kjöthlutfall verður látið haldast í hendur.

Þá kemur fram í skýrslunni að breytileiki íslenska svínastofnsins er það lítill að ekki er um veruleg frávik að ræða þótt sama reikniformúla sé notuð, eftir mælitækjum, á öll svín.

Ástæða þess að nú sé mögulegt að taka upp rafænt mat er sú að ræktun svínabænda hér á landi er orðin markviss og að notast er við sama svínastofn á öllum búum. Búið er að gera úttekt á þykkt fitu og vöðva á tilteknum mælistöðum með rafrænum mælitækjum og bera þær niðurstöður saman við upplýsingar frá norska yfirkjötmati. Slíkt var nauðsynlegt til að kanna breytileika íslenskra svína innan stofnsins sem og á milli búa. Svínastofnar hér á landi eru sambærilegir og í Noregi.

Verkefnið var unnið fyrir Svínaræktunarfélag Íslands.

IS