Fréttir

Tæknidagur fjölskyldunnar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og Verkmenntaskóli Austurlands stóðu nýverið að Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð og er það í annað sinn sem staðið er að slíkri keppni. Nemendur á unglingastigi tóku þátt í Nýsköpunarkeppninni og höfðu þau sex vikur til þess að vinna hugmyndir að mögulegri nýtingu þangs og þara úr nágrenninu.

Í ár fór verðlaunaafhendingin fram á Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Neskaupstað þann 1. október síðastliðinn. Tilgangur Tæknidagsins er að kynna tækni- og vísindastarf sem unnið er á Austurlandi auk þess að kynna starf Verkmenntaskóla Austurlands og var því vel við hæfi að tilkynna sigurvegara keppninnar á Tæknideginum.

Kennarar í grunnskólum Fjarðabyggðar unnu frábært starf í því að aðstoða nemendur við útfærslu á hugmyndunum og auk þeirra voru tveir „mentorar“ fengnir til liðs við verkefnið til að aðstoða, það voru Dr. Hildur Inga Sveinsdóttir (Matís) og Dr. Guðrún Svana Hilmarsdóttir.

Til þess að skera úr um sigurvegara keppninnar voru fengnir dómarar úr nærsamfélaginu sem búa yfir mikilli reynslu úr mismunandi áttum. Dómarar þessa árs voru þau Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð og Guðmundur Rafnkell Gíslason, framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað. Verkefni dómarana var ærið enda bárust um 30 lausnir frá grunnskólunum.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson var fenginn til þess að veita verðlaunin og gerði hann það við hátíðlega athöfn á Tæknideginum. Skemmst er frá því að segja að verkefnið Þaraplast sigraði og voru það nemendurnir Júlíus Sigurðarson og Svanur Hafþórsson úr Nesskóla sem stóðu að verkefninu. Um verkefnið hafði dómnefndin þetta að segja: „Mikil nýsköpun er í því verkefni að mati dómnefndar og höfundar hafa flotta framtíðarsýn um hvernig verkefnið geti breytt heiminum.“

Annað sæti hreppti verkefnið Fjörusalt en að því stóðu þau Þór Theódórsson og Stefanía Guðrún Birgisdóttir úr Nesskóla. Dómnefndin hafði eftirfarandi um verkefnið að segja: „hugmyndin er metnaðarfull um nýtingu fjalls og fjöru og spennandi væri að sjá hana koma á markað.“

Þriðja sæti hlaut verkefnið Þaramálning og stóðu að því þær Anna Ragnarsdóttir, Ólafía Danuta Bergsdóttir og Kolka Dögg Ómarsdóttir úr Eskifjarðarskóla og lýsti dómnefndin verkefninu með eftirfarandi hætti: „afar frumlega hugmynd og mikil nýsköpun til staðar.“

Við verkefnastjórn fyrir hönd Matís var Stefán Þór Eysteinsson verkefnastjóri. Matís vill koma sérstökum þökkum á framfæri til Birgis Jónssonar verkefnisstjóra úr Verkmenntaskóla Austurlands, dómnefndar, kennara, skólastjórnenda, „mentora“, forseta Íslands og allra þeirra sem komu að verkefninu.

Hér að neðan má sjá myndband frá sigurverkefninu: