Fréttir

Þorskeldisrannsóknir í Vísindaporti: Matís kynnir rannsóknir

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða, föstudaginn 10. október, mun dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri hjá Matís kynna þorskeldisrannsóknir fyrirtækisins á Ísafirði. Megin áhersla rannsóknanna hefur falist í því að hindra ótímabæran kynþroska hjá þorski með ljósastýringu í sjókvíum.

Ótímabær kynþroski veldur því að mjög hægist á vexti þorsks, þyngdartap á sér stað ásamt því að gæði minnka og afföll aukast. Þá hefur Matís unnið að hönnun sjókvía fyrir íslenskar aðstæður, þróað sláturlínu fyrir eldisþorsk og unnið að rannsóknum um samspil erfða og umhverfis á þorsk í eldi. Sértæk rannsóknaraðstaða hefur verið sett upp í Álftafirði til að sinna þessum líffræði- og tæknirannsóknum.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10. Þar er fjallað í stuttu máli, 20-30 mínútur, um yfirstandandi rannsóknir eða rannsóknir sem er lokið og svo er orðið gefið laust. Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og eru allir velkomnir.

IS