Fréttir

Tíðni Salmonella og Campylobacter mengunar í neytendavöru

Nú liggja fyrir niðurstöður rannsóknar sem var framkvæmd yfir 12 mánaða tímabil með það að markmiði að kanna tíðni sýklanna Salmonella og Campylobacter í íslenskum ferskum kjúklingaafurðum á markaði. 

Forsendur rannsóknarinnar var sú að Ísland hefur nú tekið upp megin hluta af matvælareglum og matvælalöggjöf ESB og því ljóst að innflutningur á ferskum kjötafurðum til Íslands gæti orðið að veruleika, en hingað til hafa stjórnvöld lagt algert bann á slíkan innflutning. Því var því þörf á öflun gagna til að meta stöðuna á öryggi íslenskra ferskra afurða á markaði með tilliti til örverumengunar og voru kjúklingaaurðir valdnar þar sem mengun þessara sýkla er þar helst að finna.

Yfirgripsmikil gögn eru til um tíðni Salmonella og Campylobacter í kjúklingaeldi á Íslandi og við slátrun undanfarinna ára en vöntun hefur verið á upplýsingum um stöðu mála á neytendamarkaði. Í rannsókninni voru tekin 537 sýni frá Maí 2012 til Apríl 2013 frá þremur stærstu framleiðendum landsins. Teknar voru til rannsóknar 183 neytendapakkningar af heilum kjúklingum, 177 pakkningar af bringum og 177 pakkningar af vængjum. Öll sýnin í rannsókninni reyndust neikvæð bæði fyrir Salmonella og Campylobacter. Því er ljóst að staða þessara mála er mjög góð hér á landi og jafngóð eða betri en gengur og gerist í öðrum ríkjum.

Skýrslu rannsóknarinnar má finna hér.

Rannsóknin var samstarfsverkefni Matís og Matvælastofnunar (MAST).

Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Reynisson hjá Matís.

IS