Fréttir

Tilkynning frá Matís vegna umfjöllunar um skýrslu sem félagið vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið

Vegna umfjöllunar um skýrslu sem Matís vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, og birst hefur á vef- og fréttamiðlum undanfarna daga, vill Matís taka skýrt fram að í skýrslunni er ekki tekin afstaða til eins útgerðarforms á kostnað annars. 

Skýrslunni er ætlað að draga fram staðreyndir um nýtingu hráefnis í íslenskum sjávarútvegi, svo mögulegt væri að móta skynsamlega stefnu um nýtingu sjávarafla til framtíðar og hvernig skapa megi sem mest verðmæti úr honum.

Það er lykilmál fyrir aukna verðmætasköpun á Íslandi að nýting sjávarafla verði með sem besta móti.  Það eru á hinn bóginn ýmsir aðrir þættir en nýting sem skipta máli varðandi verðmætasköpun, svo sem meðferð afla, val á vinnsluleiðum og afurðum, aðgengi að markaði og viðskiptasambönd.  Þá má ljóst vera að líta þarf til kostnaðar, til jafns við tekjur, enda er það arðsemi af veiðum, vinnslu og markaðssetningu sem standa þarf undir nauðsynlegri framtíðarfjárfestingu, t.a.m. vegna rannsókna og þróunar.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel á alþjóðlega vísu þegar kemur að samanburði á arðsemi og nýtingu afla.  Það er ánægjuefni að skýrslu Matís sé sýndur áhugi og hvet ég alla til að kynna sér efni hennar.  Það er von mín að í framhaldinu muni fara fram opin og heiðarleg umræða um þær leiðir sem mögulegar eru til að auka nýtingu, verðmætasköpun og arðsemi enn frekar.

Skýrsluna má nálgast hér: Bætt nýting sjávarafla, 2. útgáfa

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

IS