Fréttir

Tilraunir með fiskislóg sem jarðvegsáburð

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Slóg úr bolfiski er ekki síðri jarðvegsáburður en kúamykja. Þetta sýna tilraunir sem Matís gerði í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, útgerðarfyrirtæki í Þorlákshöfn og Sigurð Ágústsson, bónda í Birtingarholti í Hrunamannahreppi.

Að sögn Ásbjörns Jónssonar, verkefnastjóra hjá Matís, hafa verið gerðar tilraunir á vegum Landgræðslu ríkisins með virkni fiskislógs sem jarðvegsáburðar í samanburði við ýmsar tegundir húsdýraáburðar eins og hrossaskít, mykju, hænsnaskít og tilbúinn áburð. Prófanir sem fram fóru á gróðurvana svæðum í Gunnarsholti vorið 2010 leiddu að sögn Ásbjörns í ljós að fiskislógið jók gróðurþekju nokkuð mikið miðað við margar tegundir af lífrænum áburði. Síðastliðið sumar var tilraunum haldið áfram í samvinnu við Sigurð bónda í Birtingarholti en þá voru borin saman ræktuð tún þar sem annars vegar var notuð kúamykja sem áburður og hins vegar fiskislóg. Eftir tveggja mánaða sprettu var hey sem fékkst af tilraunareitunum rannsakað og köfnunarefnis-, fosfór og kalíuminnihald borið saman, en þetta eru þau efni sem hvað mikilvægust eru í lífrænum áburði. Niðurstöðurnar sýndu að það var mun meira köfnunarefnisinnihald í heyi sem fékkst af reitum sem slóg hafði verið borið á en af reitum þar sem mykja var notuð sem áburður. Hins vegar var fosfór- og kalíuminnhald svipað á þessum reitum.

Ásbjörn segir að rannsóknir á nýtingu á fiskislógs hafi staðið yfir á vegum Matís frá 2010 og ýmsar tilraunir verið gerðar sem meðal annars miði að því að auka geymsluþol slógsins, en árlega falla til um 2400 tonn af fiskislógi í Þorlákshöfn. Til þessa hafi menn einkum notað maurasýru til að auka geymsluþol fiskislógs en hún er dýr og því hafa augu manna beinst að því hvort hægt sé að drýgja hana með skyrmysu, en árlega falla til um 3 milljónir lítra af henni hjá Mjólkurbúi flóamanna á Selfossi og er ekki nema hluti hennar nýttur. Tilraunir benda til þess að vel megi nýta skyrmysu að stórum hluta með maurasýru í þessum tilgangi.

Svipað samstarf hefur átt sér stað á milli fiskeldisstöðvarinnar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði, Háskólans á Akureyri og Matís.

IS