Fréttir

Tvær mjög athyglisverðar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar hafa nú birst í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast þær á vef IAS

Fyrri greinin Samanburður á orkuarðsemi (EROI) lífrænna og hefðbundinna íslenskra kúabúa (A Comparative Analysis of the Energy Return on Investment of Organic and Conventional Icelandic Dairy Farms) er eftir Reyni Smára Atlason, Karl Martin Kjareheim, Brynhildi Davíðsdóttur og Kristínu Völu Ragnarsdóttur. Athugað var hvaða landbúnaðaraðferð skilar mestri orku til samfélagsins á móti  þeirri orku sem búin nota. Þetta er í fyrsta sinn sem orka sem íslensk bú nota er borin saman við þá orku sem þau gefa af sér. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðu um orkunýtingu í landbúnaði og hvernig við nýtum óendurnýjanlega orku og hráefni í landbúnaði. Jafnframt gerir okkur kleyft að hefja samanburð við önnur lönd á þessu sviði.

Önnur nýjung var að hér var orkuarðsemi hefðbundinna og lífrænna búa borin saman. Niðurstöður eru ekki ótvíræðara þar sem lífærnu búin voru of fá til að draga endanlegar ályktanir en rannsóknin gefur til kynna að lífræn kúabú geti gefi betri orkuarðsemi en hefðbundin býli. Uppskera á hvern hektara sé minni en á móti kemur að tilbúinn áburður er ekki notaður en gerð hans, flutningur og deyfing krefjast samanlagt mikillar orku.

Hin greinin Þráðormasamfélög Surtseyjar 50 árum eftir myndun hennar (Soil nematode communities on Surtsey, 50 years after the formation of the volcanic island) er eftir Krassimira Ilieva-Makulec, Brynhildi Bjarnadóttur og Bjarna D. Sigurðsson. Greinin fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á samfélögum þráðorma í jarðvegi á Surtsey síðan að hún myndaðist 1963, en þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og í jarðvegsmyndun. Höfundar bera saman næringarsnauð svæði og svæði sem voru næringarrík vegna þétts mávavarps. Alls fundust 25 ættkvíslar af þráðormum og þar af 14 sem ekki höfðu fundist þar áður. Höfundar fundu samband milli nokkurra jarðvegsþátta og gróðurs en jafnframt að framvinda þráðorma hafði annað ferli en gróðurframvindan.

Rannsóknir á jarðvegslífi eru afar fágætar á Íslandi og því má líta á þessa rannsókn sem nýjung á því sviði og mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi. Jafnframt er þessi rannsókn mikilvægt innlegg í framvindu á jarðvegslífi á nýrri eyju, á áður ógrónu landi.

IS