Fréttir

UNA húðvörur með lífvirkum efnum úr bóluþangi

Jákvæðar niðurstöður líftæknirannsókna Matís á undanförnum árum á þörungum og lífvirkni efna í þeim lögðu grunninn að fyrirtækinu Marinox sem nú hefur tekið til starfa.

Fyrstu framleiðsluvörurnar eru húðvörur undir vörumerkinu UNA. Þær eru nú þegar komnar á markað hér á landi en einnig er horft til framleiðslu fæðubótarefna og íblöndunarefna fyrir matvælaiðnað í framtíðinni.

Hörður Kristinsson, sviðsstjóri hjá Matís og Rósa Jónsdóttir, fagstjóri, stóðu að stofnun fyrirtækisins í samstarfi við Matís.

„Það má segja að Marinox sé formlegur farvegur fyrir okkar rannsóknir og rökrétt framhald af rannsóknum um margra ára skeið. Árið 2007 fórum við að skima fyrir efnum í þörungum með andoxunarvirkni og þær rannsóknir leiddu okkur að brúnþörungnum bóluþangi sem við ákváðum að vinna betur með. Nú erum við komin á það stig að hafa einangrað lífvirk efni úr bóluþanginu sem við höfum gert tilraunir með sem fæðubótarefni í matvælavinnslu og til framleiðslu á UNA húðvörunum. Andoxunarvirknin hjálpar húðinni að vinna á móti óæskilegum áhrifaþáttum sem við verðum fyrir í umhverfi okkar, vinnur á móti öldrun húðarinnar og þannig má áfram telja,“ segir Rósa en eiginleikar lífvirku efnanna í matvælavinnslu birtast meðal annars í auknu geymsluþoli, auk þeirra jákvæðu áhrifa sem neytandinn hefur af neyslunni.

„Hugmyndin með Marinox er að framleiða fæðubótarefni og innihaldsefni fyrir matvælaframleiðendur en einnig að þróa eigin framleiðsluvörur sem innihalda þessi jákvæðu lífvirku efni. Með UNA húðvörunum höfum við því stigið nýtt skref í ferlinu en rannsóknir á þörungum og lífvirkni efna í þeim munu halda áfram hjá okkur enda um að ræða mikla auðlind sem Íslendingar geta nýtt í framtíðinni,“ segir Rósa Jónsdóttir, fagstjóri.

IS