Eins og greint var frá hér á vefnum fyrr á árinu, fóru tveir starfsmenn Rf til Sri Lanka í maí s.l. á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) til að gera úttekt á gæðamálum fiskihafna þar í landi og var tilgangurinn að útbúa námskeið til að koma þessum málum í betra horf. Í fréttabréfi ÞÞSÍ er greint frá því að nýlega hafi fyrsta námskeiðið verið haldið þar ytra.
Í frétt á Rf-vefnum þ. 5.júlí var sagt frá för þeirra Birnu Guðbjörnsdóttur og Sveins V. Árnasonar til Sri Lanka í maí, sem farin var til að kynnast aðstæðum og gera úttekt á þeim úrbótum sem mest lægi á að gera í gæðamálum hafna og fiskvinnslu á Sri Lanka. Afraksturinn af þeirri ferð var síðan námskeiðið sem nýlega var haldið ytra.
Að sögn Árna Helgasonar, umdæmisstjóra ÞSSÍ á Sri Lanka, er gæðarýrnun mikið vandamál í fiskiðnaði á Sri Lanka, en talið er að 30-40% af afla spillist frá því fiskur er veiddur þar til hann er kominn á borð neytenda. “Verðmætatap og minnkað næringargildi er mikið af þessum sökum,” segir Árni, í viðtali á vef ÞSSÍ.
Námskeiðið, sem Rf tók þátt í að útbúa, samanstendur af 16 fyrirlestrum um ýmsa þætti gæðamála fiskafurða og skipulag góðrar meðferðar á fiski á hafnarsvæðum. Námsefnið var gefið út á ensku, sinhala og tamíl, sem eru tungumálin sem töluð er á Sri lanka. Þá voru veggspjöld gerð á sinhala og tamíl og verða þau hengd upp á hafnarsvæðum og löndunarstöðvum til að kynna og minna á mikilvægi góðrar meðferðar á fiski.
Sjá nánar um námskeiðið á vef Hafrannsóknastofnunar Srl Lanka (NARA).