Fréttir

Vefur Matís, www.matis.is, valinn besti vefurinn

Íslensku vefverðlaunin voru afhent fyrir nokkru við hátíðlega athöfn í Gamla Bíói. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var heiðursgestur verðlaunahátíðarinnar.

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2000 og hafa vaxið og dafnað með hverju árinu sem líður.

Að þessu sinni voru veitt verðlaun í 14 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að.

Vefur Matís valinn besti vefurinn í flokknum „Besti opinberi vefurinn“ og eru Matís-ingar ótrúlega stoltir af þessum verðlaunum. Efst er í huga þakklæti til Hugsmiðjunnar fyrir mjög gott samstarf og til dómnefndar fyrir að hafa kosið www.matis.is besta vefinn í þessum flokki.

Umsögn dómnefndar er sérstaklega áhugaverð enda hafa starfsmenn lagst á eitt frá stofnun Matís að sýna fram á að fyrirtækið er öflugt á sviði rannsókna og ráðgjafar í matvæla- og líftækniiðnaði, þar ríkir skemmtilegt andrúmsloft og finna má fyrir mikilli „dínamík“ í öllu starfi fyrirtækisins, allt hlutir sem gera starfsseminni kleift að aðlaga sig hratt að breyttum aðstæðum.

Umsögn dómnefndar:

„Besti opinberi vefurinn

Dómnefnd til mikillar ánægju var samkeppnin hörð um besta opinbera vefinn og margir frambærilegir í framboði. Vefurinn sem var valinn besti opinberi vefurinn er aðlaðandi, skemmtilegur og áhugaverður og kemur efninu vel til skila. Uppsetningin á vefnum er einföld en notendavæn og náði að tengjast notandanum á hátt sem margar opinberar stofnanir eru hikandi við að beita, en skilar þjónustunni og upplýsingum mun betur til notandans en strípaðir „bjúró-speak“ stofnanavefir fortíðarinnar.

Besti opinberi vefurinn er: www.matis.is. Samstarfsaðili er Hugsmiðjan“

IS