Hin viðurkennda verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með víða í Evrópu við útrýmingu riðu með góðum árangri.
Arfgerðin hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Matís hefur allt frá árinu 2004 boðið uppá greiningar á riðugeni. Matís hefur í gengum tíðina raðgreint riðugenið í um 3.500 kindum og aldrei áður fundið þennan breytileika. Sérfræðingar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hafa janframt stundað markvissa leit að þessari arfgerð um árabil.
Matís fékk sýni til greiningar úr umfangsmiklu rannsóknaverkefni á vegum RML, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð. Þær greiningar staðfestu fyrri niðurstöðu en jafnframt fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð.
Matís vinnur nú í samstarfi við Stefaníu Þorgeirsdóttur, sérfræðing á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, að innleiðingu nýrra aðferða við greiningu á riðugeninu. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að bæta inn fleiri erfðasætum í reglubundnar greiningar, m.a. hinni ný uppgötvuðu verndandi arfgerð (sæti 171) og mögulega fleiri breytilegum sætum innan riðugensins. Í öðru lagi verður leitað leiða til að auka skilvirkni og afkastagetu riðugensgreininga, með það að markmiði að lækka kostnað við greiningar svo mögulegt verði að lækka verð á greiningum til bænda.
Nánari upplýsingar um þessa merku uppgötvun má finna á heimasíðu RML: Verndandi arfgerðin ARR fundin