Fréttir

Vill fólk borða stressaðan eldisfisk?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Neytendum finnst stressaður eldisfiskur álíka góður og óstressaður. Þó virðist ábatasamt fyrir framleiðendur að mæta auknum kröfum um velferð dýra, segir í umfjöllun Morgunblaðsins um erindi Emilíu Martinsdóttur á haustráðstefnu Matís. Þar segir að velferð dýra og umhverfisvæn matvælaframleiðsla hafi í auknum mæli vakið áhuga almennings á sama tíma og áhersla hafi verið lögð á að koma á reglugerðum um fiskeldi.

“Eitt af þeim sjónarmiðum, sem hafa verið í umræðunni, er einmitt velferð dýra í eldisframleiðslu. Mikilvægt er því að kanna hvort mismunandi meðferð á fiski í tengslum við dýravelferð hefur í raun áhrif á bragð og eiginleika afurðarinnar. Ef sú er raunin gæti það haft á hrif á neytendur,” segir í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. desember.

Segir að haustið 2006 hafi verið framkvæmd viðamikil samevrópsk rannsókn sem var hluti af þátttöku Matís í svonefndu SEAFOOD plus-verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. “Markmiðið var að kanna hvort eldisþorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til dýravelferðar annars vegar og hins vegar framleiddur á hefðbundinn hátt, hefði mismunandi gæðaeinkenni. Einnig var gerð neytendakönnun til að kanna hvort neytendur hefðu mismunandi smekk fyrir þessum afurðum og hvort mismunandi upplýsingar um eldið hefðu áhrif á hvernig neytendum geðjast að afurðum. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir þá sem stunda fiskeldi, vinna vörur úr eldisfiski sem og seljendur, “ segir í grein Morgunblaðsins

Þá segir að á Íslandi hafi könnunin verið tvískipt. “Annars vegar komu rúmlega eitt hundrað manns til Matís og smökkuðu á norskum eldisþorski og hins vegar fengu um sjötíu fjölskyldur fisk með sér heim til að elda og smakka. Sambærileg könnun var gerð meðal neytenda í Hollandi og á Spáni á sama tíma,” segir í Morgunblaðinu.

Eldisþorskur, sem var með hefðbundnum aðferðum, reyndist hafa flögukenndari og mýkri áferð og minnti meira á villtan fisk, en eldisþorskur, sem var framleiddur með sérstöku tilliti til velferðar dýra, reyndist hafa kjötkenndari og seigari áferð. Þeir neytendur sem komu til Matís til að smakka fisk, fengu að vita að fiskurinn, sem þeir smökkuðu, væri norskur eldisþorskur, en engar upplýsingar voru veittar um framleiðsluaðferðina. “Þessum hópi neytenda fannst eldisþorskur framleiddur með hefðbundnum aðferðum ívið betri en þorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til velferðar dýra. Helst var það áferðin og lyktin, sem þeim fannst betri af hinum hefðbundna eldisþorski,” kemur fram í Morgunblaðinu.