Fréttir

Viltu koma þinni vöru á framfæri erlendis?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Særimner hátíðin verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Þemað í ár er norræn matvælasköpun og hefur verið opnað fyrir skráningar, fyrir þá sem vilja kynna vörur sínar og taka þátt í sænsku meistarakeppninni í matvælaframleiðslu.

Særimner er sannkölluð hátíð þeirra sem tengjast smáframleiðslu matvæla á einn eða annan hátt, hún verður haldin dagana 8.-10. október í Svíþjóð. Í ár er þemað „Norræn matvælasköpun“ sem tengist verkefninu „Ný norræn matargerð“ (e. New Nordic Food). Þar munu hittast smáframleiðendur til að kynna sínar vörur, miðla reynslu sinni og kynnast öðrum vörum. Þar verður einnig hægt að smakka á framleiðslu annarra og bjóða upp á slíkt, vilji fólk koma sínum vörum á framfæri.

Á ráðstefnunni verða einnig fjölmargir fyrirlestrar og málstofur sem tengjast matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt. Til dæmis verður framtíð norrænnar matvælasköpunar til umræðu, þar sem stjórnmálamönnum er boðið að tjá sig. Þá verður málstofa um fiskverkun áður fyrr, norræn ber og geymsluaðferðir, mat og viðskipti, auk þess sem Brynhildur Pálsdóttir mun segja frá verkefninu „Stefnumót bænda og hönnuða“, sem Matís tók þátt í. Þá verður í boði ráðgjöf til smáframleiðanda sem vilja þróa vörur sínar áfram. Það er því ljóst að allir áhugasamir um smáframleiðslu matvæla geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.

Sænska meistarakeppnin í matvælaframleiðslu

Á Særimner verður sænska meistarakeppnin (SM) í matvælaframleiðslu haldin í 17. skipti og að þessu sinni verður hún opin fyrir keppendum frá Norðurlöndunum. Keppt verður í 5 aðalflokkum sem eru: kjötvörur, fiskvörur, mjólkurafurðir, bökunarvörur og vörur úr berjum, ávöxtum og grænmeti. Undir hverjum aðalflokki eru svo ýmsir vöruflokkar. Í ár verða nokkrir nýir og spennandi vöruflokkar eins og mjólkursýrt grænmeti,  sinnep, sætabrauð og nýsköpun í matvörum. Fjöldi dómara, sérfróðir á sínu matvælasviði, dæma keppnina, sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Til mikils er að vinna því þær vörur sem hljóta verðlaun í keppninni fá góða athygli sem mun auðvelda markaðssetningu þeirra. Allir keppendur fá dóma um sínar vörur frá dómurum, sem hjálpar til við áframhaldandi þróun vörunnar. Fulltrúi Íslands í dómarahópnum verður Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari og sérfræðingur hjá Matís.

Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á matvælasköpun. Hún er mikilvægur vettvangur tengslanets milli smáframleiðanda, hugmyndaauðgandi og spennandi auk þess sem hún styrkir án efa smáframleiðendur í framleiðslu sinni.

Skráning á Eldrimner hófst 6. maí en opið er fyrir skráningar til 13. september. Eftir það er hægt að skrá sig gegn hærra skráningargjaldi. Öllum er frjálst að vera með og hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi eða eru áhugasamir að láta sjá sig.

Frekari upplýsingar um hátíðina veita: Gunnþórunn Einarsdóttir, gunnthorunn.einarsdottir@matis.is og Óli Þór Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is

Heimasíða Særimner: http://www.eldrimner.com/

IS