Fréttir

Vísindin lifna við á Vísindavöku

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vísindavaka 2010 verður haldin í dag, föstudaginn 24. september, í Listasafni Reykjavíkur frá kl. 17 til kl. 22. Matís er þátttakandi á vísindavökunni og reikna má með fjölmenni í heimsókn.

Dagurinn er tileinkaður evrópskum vísindamönnum og haldinn hátíðlegur í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með Vísindavöku og atburðum henni tengdum er að færa vísindin nær almenningi, kynna fólkið á bak við rannsóknirnar og vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamélagi. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.

Sprengjugengið og fleiri mæta!

Á Vísindavöku er fullt af fróðleik fyrir fólk á öllum aldri og í ár verður boðið upp á atriði á sviði og má þar nefna Sprengjugengið sem mætir á svæðið. Á Vísindavöku kynnir vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknarverkefni fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Fjölskyldan er í fyrirrúmi á Vísindavöku og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna heim vísinda og tækni fyrir börnum og unglingum, en ungt fólk er sérstaklega velkomið á Vísindavöku.

Vonandi sjá sem flestir sér fært að kíkja á Listasafn Reykjavíkur og spjalla við vísindamenn og skoða það sem fyrir augu ber á Vísindavöku. Enginn aðgangseyrir er og allir eru velkomnir. Hér má finna yfirlit yfir dagskrá og þátttakendur.

IS