Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða eykur verðmætasköpun

Það má segja að þetta sé nokkurs konar regnhlíf fyrir mörg smá verkefni sem unnin eru innan Matís í samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga víða um land og miða að því að auka verðmæti sjávarfangs.

„Verkefnasjóður sjávarútvegsins gerði okkur kleift að veita nýjum og smáum verkefnum brautargengi án þess að þurfa að leita eftir stuðningi fyrir hvert þeirra með umsóknum til stærri sjóða,“ segir Páll Gunnar Pálsson, verkefnisstjóri, um tilurð Vöruþróunarseturs sjávarafurða.

„Oft er það þannig að við hér innan Matís erum í sambandi við einstaklinga eða fyrirtæki sem þurfa á aðstoð að halda til að koma hugmynd í framkvæmd eða hjálp til að ljúka verkefnum. Gjarnan eru þau þess eðlis að þau eru of lítil eða ekki komin á það stig að þau rími við áherslur samkeppnissjóðanna vegna styrkjaúthlutana. Við skynjuðum að mikil þörf var á nýjum farvegi fyrir þessi verkefni, enda höfum við innan Matís mikið að bjóða með okkar sérfræðiþekkingu og aðstöðu. Þetta getur því verið allt frá rannsóknum eða greiningum yfir í ráðgjöf um húsnæði, tæknilausnir, vöruþróun eða markaðsstarf. Í grunninn eru þetta lítil verkefni, afmörkuð í tíma, en þau geta síðan vissulega stækkað í framhaldinu og færst þá yfir á það stig sem hentar stuðningskerfi samkeppnissjóðanna,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar segir verkefnin sem Vöruþróunarsetur sjávarafurða vinnur að mjög fjölbreytt. Sum hver hafi þegar skilað afurðum á markað og séu jafnvel grunnurinn að stofnun lítilla fyrirtækja.

 „Sem dæmi má nefna þaraskyrið sem innan tíðar fer í framleiðslu, UNU húðvörur sem eru komnar á markað og byggja á notkun lífvirkra efna úr bóluþangi og Reykhöll Gunnu á Rifi sem fékk aðstoð við vöruþróun og gæðaeftirlit. Á þessu ári eru verkefnin komin vel á fjórða tuginn og er þar m.a. verið að vinna að bættri nýtingu á grásleppu, fæðubótarefnum úr þangi, fersklýsi úr lifur, umbúðum fyrir lifandi humar, upplýsingum um sjávarfang fyrir markaðs- og sölufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

 Staðsetning starfsstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi. Við tökum vel á móti öllum og leggjum okkur fram um að styrkja verkefnahugmyndirnar með okkar sérþekkingu svo árangurinn verði aukin verðmæti sjávarfangs.“

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar.

IS