Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.
Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.