Lífmassi – Hliðarafurðir í matvælavinnslu
Í lífmassaveri Matís má finna tæknilega fullkominn vinnslubúnað sem hentar vel við þróun og framleiðslu á próteinum og olíum úr hliðarafurðum matvælavinnslu sem nýta má ýmist í fóðurgerð eða til manneldis og matvælagerðar.
Hluti af lífmassaveri Matís er færanlegur svo mögulegt er að flytja tækin hvert á land sem er. Þannig eru hámarks gæði og ferskleiki hráefnisins sem rannsakað er hverju sinni tryggð. Með færanlegu lífmassaveri er þjónusta við innlenda matvælaframleiðendur aukin um allt land – sérstaklega ef horft er til nýsköpunar og vöruþróunar.
Betri nýting hliðarstrauma
Töluvert magn af hliðarafurðum getur myndast við hefðbundna matvælaframleiðslu og er hluti af þeim nýttur við t.d. fóður- og áburðargerð eða við orkuframleiðslu, en að sama skapi er stóri hluti hliðarafurðanna vannýttur og jafnvel ekkert nýttur.
Miklir möguleikar liggja í því að nýta áður van- og ónýtt hráefni sem fellur til við matvælaframleiðslu með notkun nýrra tækni- og verkferla sem geta breytt þeim í verðmætari afurðir. Lífmassaverið er lykillinn að því að taka næstu skref í rannsóknum á hliðarstraumum matvælaframleiðslu.
Með notkun þess má komast af rannsóknarstofunni og inn í iðnað án þess að taka yfir framleiðslulínur fyrirtækja.
Nýsköpun og vöruþróun / Breyting á framleiðsluferlum
Hjá Matís starfa sérfræðingar sem geta veitt ráðgjöf og aðstoð með bestun ferla og uppsetningu á framleiðsluferlum og hvernig best megi nýta hliðarstrauma úr matvælavinnslu.
„Lífmassaverið er í raun týndi hlekkurinn sem hefur vantað til að geta skalað upp framleiðslu í þeim fjölmörgu verkefnum sem Matís hefur unnið að með matvælafyrirtækjum hérlendis“.
Uppskölun
Fyrir framleiðsluferli sem skala á upp á iðnaðarskala er nauðsynlegt að keyra tilraunakeyrslur á minni búnað sem getur líkt eftir raunverulegum aðstæðum sem finna má í framleiðslu. Það er óumflýjanlegt að upp komi vandamál í framleiðsluferlum sem skala á upp af rannsóknarstofunni eða úr eldhúsinu. Hvert framleiðsluferli er einstakt og þarf því einstakar lausnir fyrir hvert hráefni sem notast er við svo mögulegt sé að búa til afurðir sem standast kröfur þess markaðar sem afurðin fer á. Með notkun lífmassaversins má lækka kostnað á uppskölunartilraunum, bæði hvað varðar tíma og peninga. Það getur hentað matvælaframleiðendum sem vilja gera athuganir og rannsóknir áður en farið er í stórtækar fjárfestingar vel. Að auki er þannig stuðlað að eflingu innlendrar starfsemi á þessu sviði.
Dæmi um lífmassa sem nýta má í Lífmassaveri Matís
Mysa, mjólk, korn, smáþörungar, hliðarhráefni úr fisk- og kjötvinnslu, dýrasvif, mosi og fléttur, ber. Möguleikarnir eru í raun endalausir.
Búnaður:
- Diskaskilvinda: Hægt er að gera mjög fjölbreyttar tilraunir
- Himnusíun: Einangrar lífvirk efni eða önnur efni
- Úðaþurrkari: Framleiðir fínt duft, yfirleitt próteinduft