Bragð og beitarhagar. Framvinduskýrsla
Verkefnið snýst um að rannsaka og kanna hvort munur sé á eiginleikum og bragði lambakjöts eftir beitarhögum og uppruna lamba í þeim. Tilgangurinn er að styrkja enn frekar grunninn fyrir vinnslu og sölu lambakjöts beint frá býli út frá sérkennum hvers svæðis. Verkefnið er unnið í samstarfi Austurlambs, Búnaðarsambands Austurlands, bæjanna Hákonarstaða og StóruBreiðuvíkur, Gunnarsstaða, Matís og Félags matreiðslumeistara. Það skiptist í undirbúning hjá bændum, slátrun og sýnatöku, mælingar á bragð- og lyktarefnum, mat á matreiðslueiginleikum, uppgjör og kynningu á Fræðaþingi landbúnaðarins og gerð kynningarefnis fyrir viðkomandi býli/svæði til að nota í markaðsstarfi og loks ritun vísindagreinar um rannsóknina. Með verkefninu er vonast til að geta greint í smáatriðum frá bragði og eiginleikum kjöts lamba af mismunandi beitarhögum til að nota þegar kjötið er selt á markaði fyrir staðbundið lambakjöt jafnt í netverslun, í ferðaþjónustu, veitingahúsum og öðrum sælkeramarkaði svo hægt sé að fá hærra verð fyrir kjötið og meiri arðsemi beint á býlið. Viðkomandi býli og Austurlamb munu hagnýta sér niðurstöðurnar í kynningar og markaðsstarfi jafnframt því sem verkefnið nýtist öðrum framleiðendum og vinnsluaðilum lambakjöts. Öllum undirbúningi, slátrun, sýnatöku og mælingum er lokið og verið er að vinna úr niðurstöðum. Lokaskýrsla og birting niðurstaða er að vænta í febrúar á Fræðaþingi landbúnaðarins. Í lok janúar er stefnt að hálfsdags málþingi um áhrif beitarhaga á bragð lambakjöts, haldið í Matvælaskólanum í Kópavogi með þátttöku Matís, Matvælaskólans, sauðfjárbænda og matreiðslumeistara.