Fréttir

Matarsmiðjan

Lava Cheese

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Guðmundur Páll Líndal og Jóhann Már Helgason hjá Lava Cheese

Árið 2017 stofnuðu félagarnir Guðmundur Páll og Jósep Birgir Þórhallsson fyrirtækið Lava Cheese en síðar kom Jóhann Már inn í framleiðsluna og reka þeir Guðmundur fyrirtækið í dag. Síðla árs 2016 kviknaði hugmyndin þegar þeir vinirnir sátu saman og gæddu sér á grilluðum samlokum með osti en ræddu það að þeim þætti stökki, grillaði osturinn sem hafði harðnað á grillinu besti hluti máltíðarinnar. Út frá þessum samræðum hófu þeir frekari hugmyndavinnu og þróun og úr varð ostasnakkið Lava Cheese.

Lava Cheese snakkið er búið til úr alíslenskum osti sem er eldaður í ofni þannig að hann breytist í stökkar og ljúffengar ostaflögur. Metnaður er lagður í að ná fram örlítið brenndu bragði og er það eitt sérkenna snakksins. Engum óheilnæmum aukaefnum er bætt út í vörurnar en sumar tegundir eru þó bragðbættar, til dæmis með chiliflögum eða lauk. Í einni öskju hljóða næringarupplýsingarnar því upp á um 39% prótein og 0% kolvetni. Þetta hefur í för með sér að snakkið er góður kostur fyrir þá sem kjósa sér lágkolvetnamataræði eða ketó.

Í dag má fá Lava Cheese snakkið í ýmsum verslunum um allt land. Boðið er upp á fjórar bragðtegundir af snakkinu en það eru Chili, Smoked, Sour cream & onion og Plain bragð sem er í raun óbragðbætt. Mögulegt er að neyta snakksins á ýmsa vegu en algengast er að borða það eintómt sem nasl. Hugmyndaflugið hefur þó fengið að ráða ferðinni hjá mörgum og fólk hefur smurt snittur úr Lava Cheese, til dæmis með því að setja sýrðan rjóma og kavíar eða pestó, beikonsneið og egg ofan á flögurnar. Einnig er tilvalið að mylja Lava Cheese ofan í salat skálina og nokkrar uppskriftir á salat-veitingastaðnum Local bjóða einmitt upp á þann valkost.

Nánari upplýsingar um Lava Cheese má meðal annars finna á vefsíðunni þeirra hér  og upplýsingar á ensku hér.

IS