Búið er að opna Fiskbókina en bókin er fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri. Með þessari rafrænu útgáfu Fiskbókarinnar er mögulegt að koma á framfæri margvíslegum upplýsingum um fisk og fiskafurðir, fræðslu og rannsóknum sem þeim tengjast með mun skilvirkari og fjölbreyttari hætti en hægt er í prentaðri bók.
Fiskbókin er unnin í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök fiskvinnslustöðva, nú samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og Iceland Seafood International með stuðningi AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.
Fiskbókin var opnuð í miðju erindi Matís starfsmanna um margföldun verðmæta til útflutnings að ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála viðstöddum á ráðstefnunni Matvælalandinu í sl. viku.
Fiskbókin er önnur í röð rafrænna bóka frá Matís en áður hafði Kjötbókin verið sett í loftið.
Bókin er öllum opin til frjálsra afnota, þó ber að geta upprunans ef upplýsingar úr bókinni eru nýttar í hverskyns annarskonar útgáfu. Vistun bókarinnar er með þeim hætti að hægt er að prenta hana út í heild, valda kafla eða einstakar síður og nýta þær sem hluta af kynningarefni. Hver einstök síða er merkt upprunanum og er innihald hennar óbreytanlegt.