Ný grein var að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þar kemur fram að sníkjudýr hafi verið staðfest í innfluttum hundum og köttum á Íslandi á árunum 1989 – 2017.
Innflutningsbanni á hundum var aflétt 1989 og síðan er innflutningur á hundum og köttum leyfður að uppfylltum skilyrðum um heilbrigði og einangrun í ákveðinn tíma. Frá 1989 fram til ársloka 2017 voru 3822 hundar og 900 kettir fluttir til landsins.
Dýrin hafa komið frá 67 löndum í öllum heimsálfum. Leit að innsníklum leiddi í ljós eina eða fleiri tegundir sníkjudýra í 10,6% hunda og 4,2% katta, óværa hefur fundist við komuna til landsins á 0,2% hunda og 0,2% katta. Alls hafa 18 tegundir innri sníkjudýra og sex tegundir óværu fundist í eða á innfluttum gæludýrum. Talið er að sex þeirra (þráðormur og fimm óværutegundir) hafi borist yfir í innlenda hunda eða ketti með gæludýrum sem enn voru smituð þegar einangrunarvist lauk. Tvær eða þrjár tegundanna virðast hafa náð fótfestu á Íslandi en talið er að tekist hafi að útrýma þremur þeirra.