Fréttir

Matís með formennsku í European Sensory Network (ESN)

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Vinnslu- og vöruþróunarsviði er nú formaður í European Sensory Network (ESN) sem eru alþjóðleg samtók rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði skynmats og neytendarannsókna.

Í ESN eru 23 þátttakendur frá 16 Evrópulöndum, en einnig eru fjórir aðilar utan Evrópu í samtökunum: frá Kanada, Suður-Afríku, Ástralíu og Ísrael.
Þessi alþjóðlegu samtök voru upphaflega stofnuð sem vettvangur fyrir umræður og samvinnu meðal bestu rannsóknafyrirtækja í hverju landi og er ætlað að tryggja matvælaiðnaði í hverju landi aðgengilegar og örugggar aðferðir við skynmat. Þáttakendur eru allir með mikla reynslu á þessu sviði.

Fundur var haldinn í European Sensory Netwok í byrjun október í Kaupmannahöfn. Fundurinn var fjölsóttur því að auk þátttakenda í ESN voru fulltrúar 15 matvælafyrirtækja sem boði hefur verið að taka beinan þátt í ESN samstarfi (ESN-Industry Network Partnerships).

Fyrirtækin munu leggja fram fjármagn í ákveðin rannsóknaverkefni sem þau geta sameinast um og verða rannsóknaverkefnin unnin af tveimur eða fleiri ESN-þáttakendum hverju sinni. Ný rannsóknaverkefni verða síðan valin árlega. Þessi ESN iðnaðarvettvangur mun auka samskipti einstakra aðila ESN við matvælaiðnaðinn.

Erlendu matvælafyrirtækin sem nú hafa skrifað undir samning um þátttöku í ESN eru eftirfarandi Givaudan, Kraft Foods, Symrise, Firmenich, Nestlé, Unilever, Friesland Foods,  Danone, Heineken, GlaxoSmithKlene, General Mills, Tetra Pak, Philip Morris og  Danisco.

Nánarí upplýsingar má fá á heimasíðu ESN, www.esn-network.com/, og hjá Emilíu, emilia.martinsdottir@matis.is.

IS