Þörungar njóta sífellt meiri vinsælda á Vesturlöndum til neyslu, meðal annars vegna þess að þeir eru rík uppspretta steinefna og vítamína. Þeir taka hins vegar einnig upp frumefnið arsen (e. arsenic) úr sjónum, sem getur verið krabbameinsvaldandi.
Í þörungum greinist arsen aðallega á formi fjölbreyttra lífrænna efnasambanda arsens t.d. arsenósykrur og arsenólípíð, en lífrænar arsentegundir hafa verið taldar hættulausar. Nýlegar rannsóknir á arsenólípíðum hafa þó sýnt að þau geta sýnt svipaða eiturvirkni og krabbameinsvaldandi ólífrænt arsen. Spurningunni hefur einnig verið varpað fram hvort arsenósykrur, sem eru í meirihluta þess arsens sem mælist í þörungum, geti haft langvarandi neikvæð áhrif við reglubundna neyslu. Styrkur eitraðs ólífræns arsens og arsenólípíða er þó að jafnaði lágur í þörungum en á því eru undantekningar. Til að mynda er ekki mælt með neyslu á brúnþörungnum Hijiki, sem nýttur hefur verið t.d. í súpur, þar sem hann inniheldur mikið magn af ólífrænu arseni.
Margt er enn á huldu um uppruna arsenólípíða en upphafspunktur framleiðslu þeirra er talinn eiga sér stað í þörungum.
Brýn þörf er á frekari upplýsingum um þessi efnasambönd arsens til að meta til hlítar hvort neyslu þeirra fylgi áhætta og tryggja þá að settar séu viðeigandi reglur um hámarksmagn þeirra í matvælum.
Sýnataka gaf dýpri skilning
Til að öðlast dýpri skilning var tugum sýna af rauð-, græn- og brúnþörungum safnað nálægt Grindavík og Kjalarnesi. Sýnin voru ítarlega rannsökuð m.t.t. þungmálma og framkvæmd var tegundagreining arsens til að afla upplýsinga um efnaform arsensins.
Tegundagreining getur verið flókin og var framkvæmd með sértækum massagreinum. Aukinheldur var brúnum stórþörungum skipt í líffræðilega hluta til að ákvarða hvort dreifing arsentegunda væri jöfn um þangið. Takmarkaðar upplýsingar eru til á heimsvísu um arsenólípíð í þangi, svo þessi umfangsmikla prófílgreining arsentegunda í mismunandi tegundum þörunga leggur lóð á vogarskálarnar til að skýra hvernig þessi dularfullu lífrænu efnasambönd arsens myndast og hvar þau eru geymd innan þörunganna.
Niðurstöður sýndu mikinn mun á milli þörungategunda
Niðurstöðurnar sýndu m.a. að styrkur vatnssækinna arsentegunda, eins og arsenósykra og ólífræns arsens, reyndist breytilegur milli mismunandi þörungategunda. Ólífrænt arsen fannst í lágum styrk í öllum þörungunum sem mældir voru nema í hrossaþara en þar var styrkurinn hár – en þó mishár eftir því hvaða hluti þörungsins var mældur. Samsetning arsenósykra var einnig háð þörungategundum og árstíð. Áhugavert var að allir stórþörungar virðast hafa getu til að framleiða fjórar helstu afleiður arsenósykra þó samsetningin sé breytileg.
Fitusæknar tegundir arsens (arsenólípíð) voru einnig mismunandi milli þörungategunda. Breytilegt var hvaða tegund arsenólípíða var ríkjandi, en sá munur var mestur milli brún- og rauðþörunga samanborið við grænþörunga. Þetta hefur aldrei verið sýnt fram á áður.
Þessar niðurstöður gefa til kynna að hringrás arsens sé mjög háð þörungategundum, sem hafa e.t.v. þróað með sér mismunandi aðferðir og leiðir fyrir efnaskipti arsens.
Annað markmið var ítarleg greining á arsentegundum í mismunandi hlutum þörunga (t.d. festi, stilki, blaði, eða æxlunarvef) og milli árstíða til að gefa innsýn í hvernig þessi efnasambönd myndast. Arsenósykrur og ein tegund arsenólípíða sem innihalda arsensykrur fundust í hæstum styrk í æxlunarvef brúnþörunga. Þetta gefur til kynna að sykrurnar séu upphafspunktur framleiðslu þessara arsenólípíða. Mögulegt er að arsenósykrur eða arsenólípíð séu framleidd með ákveðinn líffræðilegan tilgang og þörungurinn geti nýtt þessi efnasambönd en framleiðsla þeirra gæti einnig verið fyrir slysni! Arsenósykrur virðast þó ekki þjóna tilgangi orkugeymslu eins og aðrar sykrur, og enn hefur ekki verið uppgötvað hvort og hver ávinningur er af tilveru þeirra í frumuveggnum.
Hefur þú áhuga á að vita meira?
Verkefnið „Dreifing arsentegunda eftir þanghlutum, sér í lagi arsenlípíða“ fékk styrk úr Rannsóknarsjóði árið 2020 og hefur verið í gangi síðastliðin 4 ár til að öðlast betri og dýpri skilning á þessu áhugaverða sviði. Verkefnið var unnið m.a. sem hluti doktorsnáms við Háskóla Íslands, í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun, Háskólann í Graz og Háskólann í Aberdeen.
Rannsóknin hefur stuðlað að betri skilningi á tilvist mismunandi efnasambanda arsens í stórþörungum. Gögnin geta einnig nýst við áhættumat á arsentegundum í þangi til manneldis og geta því haft áhrif á framtíðarlöggjöf um matvælaöryggi. Niðurstöðurnar úr verkefninu eru viðamiklar og má fylgjast með nýjum vísindagreinum sem enn er verið að birta úr verkefninu hér.