ALMENNIR SKILMÁLAR MATÍS OHF.
- GILDISSVIÐ
Almennir skilmálar þessir gilda um verkefni unnin af Matís samkvæmt verksamningi. Það sem ekki er nefnt í verklýsingu, sem fylgir með samningi, er utan gildisviðs samnings þessa. Verksamningurinn ásamt fylgiskjölum og skilmálar þessir öðlast gildi við undirritun. Skilmálar þessir taka til allra samskipta aðila varðandi það verkefni sem samningurinn tekur til og þeirra atvika er af því kunna að leiða.
2. SKYLDUR AÐILA
Verkkaupa eða fulltrúum hans er skylt að vera Matís til ráðuneytis um framkvæmd verksins og sjá um að sá búnaður og upplýsingar séu til staðar sem fyrir hendi þurfa að vera til að unnt sé að leysa verkefnið af hendi. Matís skuldbindur sig til að vinna verkefnið eftir bestu getu og ljúka því á umsömdum tíma. Matís skuldbindur sig til þess að óska eftir upplýsingum frá verkkaupa sem Matís telur nauðsynlegar til að ljúka verkefninu. Matís er heimilt að ráða undirverktaka til framkvæmdar á öllu verkinu eða einstökum verkþáttum en eftir sem áður skal Matís hafa eftirlit með verkefninu og gera verkkaupa grein fyrir framgangi þess.
3. TAFIR OG BREYTINGAR
Verktíminn er miðaður við þær forsendur sem upp eru gefnar í tímaáætlun. Geri verkkaupi breytingar á verklýsingu eftir að verkefnið er hafið og verkefnið tefst af þeim sökum, ber Matís ekki ábyrgð á þeirri töf. Aðilar skulu semja um það sérstaklega hversu langan tíma tekur að koma breytingunum í framkvæmd.
Sé verklýsing röng, ber verkkaupi alfarið ábyrgð á þeim töfum sem af því stafa. Sama á við ef verklýsing er ónákvæm. Þá verður Matís ekki talið bera ábyrgð á töfum sem stafa af ófyrirsjáanlegum atvikum, svo sem verkföllum, innflutningsbanni, eldsvoða eða öðrum slíkum atvikum sem ekki er hægt að sjá fyrir. Tafir sem verða á verkefninu, sem stafa af því að verkkaupi leggur ekki fram þau tæki og búnað sem honum ber á réttum tíma, svo og nauðsynlegar upplýsingar eða ákvarðanir varðandi verkefnið, eru á ábyrgð verkkaupa. Verði seinkun fyrirsjáanleg á vinnu Matís við verkefnið skal verkkaupi látinn vita eins fljótt og verða má.
4. TRÚNAÐUR
Í tengslum við samstarf aðila kunna að verða afhentar upplýsingar, gögn eða annað, bæði skriflega og munnlega, sem mikilvægt er fyrir aðila að njóti trúnaðar. Aðilar eru sammála um það að öll slík gögn/upplýsingar, sem aðilar gefa til kynna með einum eða öðrum hætti skriflega, munnlega eða rafrænt, séu trúnaðargögn/trúnaðarupplýsingar, sem og gögn og upplýsingar sem samkvæmt efni þeirra er eðlilegt að fari leynt, skuli aðilar halda leyndum eins og um eigin trúnaðarupplýsingar/gögn væri að ræða. Aðilar skuldbinda sig jafnframt til að tryggja að allir starfsmenn sem að verkefninu koma á þeirra vegum séu upplýstir um þessa trúnaðarskyldu og að þeir séu jafnframt, í gegnum ráðningarsamninga sína, bundnir fullum trúnaði í tengslum við vinnu sína við verkefnið. Trúnaðarskylda þessi skal gilda í 5 ár frá og með lokum verkefnisins.
5. GREIÐSLUR
Almennt skal greiða fyrir vinnu Matís samkvæmt gildandi verðskrá Matís nema um annað sé samið. Reikningar, hvort sem vinna er unnin af Matís eða af hálfu verktaka fyrir Matís, eru sendir út í lok hvers mánaðar eða samkvæmt umsaminni greiðsluáætlun fyrir áfallinni vinnu og öðrum kostnaði. Reikningur skal greiddur innan 20 daga frá dagsetningu hans en að öðrum kosti er Matís heimilt að krefjast dráttarvaxta eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samningsfjárhæð tekur breytingum í samræmi við breytingar á verðskrá Matís og er Matís ekki skylt að tilkynna sérstaklega um hverja breytingu fyrir sig.
6. VANSKIL
Verði vanskil á greiðslum ítrekuð af hálfu verkkaupa skv. 5 tl. skilmála þessara, er Matís heimilt, auk heimildar til töku dráttavaxta, að stöðva verkið þar til full skil hafa verið gerð og ber ekki ábyrgð á þeim töfum sem verða á verkáætlun af þessum sökum. Þá getur Matís rift samningi þessum og innheimt áfallinn kostnað með málsókn. Verði greiðslur ekki inntar af hendi innan tveggja vikna frá því verk hefur verið stöðvað samkvæmt þessari grein á Matís haldsrétt í verkefninu þar til fullnaðargreiðsla hefur verið innt af hendi.
7. TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR
Að því marki sem lög leyfa skal ábyrgð Matís, þ.m.t. stjórnenda félagsins, starfsmanna og verktaka, á öllum kröfum kunna að rísa vegna eða í tengslum við verkefnið takmarkast við þá fjárhæð sem verkkaupi hefur greitt Matís fyrir verkefnið á síðustu 3 mánuðum fyrir tjónsatburð. Matís ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á óbeinu, tilfallandi, sérstöku eða afleiddu tjóni, þ.m.t. en ekki takmarkað við tap hagnaðar, tap á gögnum eða skaða á orðspori verkkaupa. Ekkert í þessum samningi skal þó útiloka eða takmarka ábyrgð Matís á tjóni sem hlýst af stórkostlegu gáleysi, vísvitandi misferli eða svikum af hálfu starfsmanna Matís.
Verkkaupi samþykkir að þjónusta Matís sé eingöngu veitt í rannsóknar- og upplýsingaskyni og feli ekki í sér ráðgjöf um lög og reglugerðir sem gilda um verkkaupa eða næringarleiðbeiningar. Verkkaupi ber einn ábyrgð á ákvörðunum eða aðgerðum sem hann tekur á grundvelli niðurstaðna verkefnisins. Matís ber ekki ábyrgð á ákveðnum niðurstöðum verkefnisins. Verkkaupa ber að greiða fyrir vinnu Matís óháð árangri af verkefninu.
8. EIGNA- OG HUGVERKARÉTTINDI
Öll þekking sem aðilar búa yfir og hugverkaréttindi sem aðilar eiga við upphaf verkefnisins skulu vera eign viðkomandi aðila, aðrir aðilar hafa þó rétt til að nýta sér þekkinguna að því leyti sem nauðsynlegt er til að leysa verkefnið. Verði til einkaleyfishæfar uppfinningar eða önnur hugverkaréttindi í samstarfi aðila getur sá aðili sem finnur upp eða þróar hugverkaréttindin sótt um skráningu til þess að tryggja sér eignarhald á slíkum réttindum, þ.á m. einkaleyfi á uppfinningu, eða þróað slík hugverkaréttindi án samþykkis hins. Verði hlutur aðila í slíkri uppfinningu eða slíkum hugverkaréttindum ekki greindur að, skulu þeir sameiginlega sækja um einkaleyfi eða aðra skráningu hugverkaréttindanna. Ef sótt er um einkaleyfi í nafni beggja aðila samningsins, skal samið skriflega um eignarhluta, rétt og takmarkanir hvors aðila fyrir sig og þar með kostnaðarhlutdeild við einkaleyfisumsókn. Í því tilfelli að annar aðilinn óskar eftir að þróa uppfinningu frekar, sem gæti leitt til sameiginlegs einkaleyfis beggja aðila, skal sá aðili semja um áframhaldandi þróun við hinn aðilann. Vilji annar aðilinn sækja um einkaleyfi á uppfinningu úr verkefninu en hinn ekki eða ef ekki næst samkomulag um réttindi eða skiptingu kostnaðar við slíka umsókn getur hann sótt um slíkt einkaleyfi á eigin kostnað. Vísindaritgerðir, skýrslur og greinargerðir sem greina frá niðurstöðum verkefnisins verða birtar í röð höfunda samkvæmt samkomulagi.
9. ÁGREININGSMÁL
Um samning þennan gilda Íslensk lög. Komi upp ágreiningur um atriði þau er þessi samningur tekur á skuldbinda aðilar sig til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa slíkan ágreining með sátt. Takist það ekki, skal ágreiningurinn lagður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
10. ANNAÐ
Á meðan verkefninu stendur og fyrstu 2 árin eftir að verkefni lýkur þegar fjallað er um verkefnið eða niðurstöður þess í ræðu og riti skal minnst á framlag allra aðila sem að verkefninu koma. Geta skal samstarfsaðila, fjármögnunaraðila og allra annara sem að verkefninu hafa komið með beinum hætti. Umfjöllun þessi er til dæmis, en ekki einskorðuð við, fyrirlestra, viðtöl í útvarpi eða sjónvarpi, blaðaskrif, bókaskrif, skrif í ritrýndum vísindatímaritum, myndbönd, ársskýrsluskrif eða hvaðeina annað sem tengist markaðssetningu verkefnisins eða niðurstaðna þess.