Matís rekur öfluga starfsstöð í Neskaupstað þar sem unnið er bæði við þjónustumælingar sem og að rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu.
Starfsstöðin í Neskaupstað sinnir fjölbreyttri þjónustu, þar sem við metum meðal annars gæði og ferskleika sjávarafurða og annarra hráefna sem fara til matvælaframleiðslu. Við þjónustum m.a. sjávarútveginn, fyrirtæki í matvælaframleiðslu, álframleiðslu, heilbrigðiseftirlit og fleiri aðila sem treysta á faglega greiningarþjónustu. Að sama skapi standa dyrnar opnar fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á samstarfi, stóra sem smáa, og leggjum við okkur fram um að styðja við nýsköpun, vöruþróun og gæðamál í atvinnulífinu.

Við leggjum jafnframt áherslu á að styðja við verðmætasköpun í sjávarútvegi og annarri matvælaframleiðslu með því að þróa nýjar lausnir og afurðir, bæta gæði og tryggja öryggi matvæla. Verkefnin okkar eru unnin í samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög, háskóla og aðra hagaðila, bæði á landsvísu og alþjóðavettvangi.


Það skiptir gríðarlega miklu máli að Matís sé með starfsstöð á Austurlandi. Nálægðin við fyrirtækin á svæðinu styrkir tengslin við atvinnulífið og eykur aðgengi þeirra að rannsókna- og greiningaþjónustu. Með því að byggja upp öfluga þekkingarstarfsemi í heimabyggð skapast ný tækifæri fyrir ungt fólk, stuðlað er að fjölbreyttari atvinnu og aukinni nýsköpun á svæðinu. Þannig leggur Matís sitt af mörkum til að efla byggð á landsbyggðinni.
