Fréttir

Sjávarútvegur, framfarir og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís, umræðuefni leiðara Morgunblaðsins

Þriðjudaginn 22. október sl. var áhugavert umfjöllunarefni tekið fyrir í leiðara Morgunblaðsins. Þar var rætt um íslenska sjávarútveg, framfarir sem þar hafa átt sér stað, tækifæri nánustu framtíðar og Sigurjón Arason yfirverkfræðing hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands.

Matís fékk góðfúslegt leyfi Morgunblaðsins til að birta leiðarann í heild sinni.

Ótrúlegar framfarir í sjávarútvegi

Stjórnkerfi fiskveiða á ríkan þátt í gríðarlegri aukningu aflaverðmætis

Þær miklu framfarir sem orðið hafa í sjávarútvegi og vinnslu og markaðssetningu sjávarfangs á undanförnum árum og áratugum hafa ekki farið mjög hátt hér á landi, í það minnsta hafa þær ekki vakið þá athygli sem þær ættu skilið. Þetta er bagalegt því að þessar framfarir hafa þýðingu í umræðunni um skipulag sjávarútvegs hér á landi og hvaða aðstæður honum er boðið upp á.

Í viðtali Morgunblaðsins við Sigurjón Arason, sem nýlega var skipaður prófessor í matvælafræði við Háskóla Íslands en hefur um áratugaskeið unnið að bættri nýtingu sjávarfangs, komu fram margar athyglisverðar staðreyndir um það sem gerst hefur í þessum efnum hér á landi og hvaða þýðingu það hefur haft fyrir efnahag þjóðarinnar. Sigurjón bendir á að nú sé hætt að tala um úrgang og að nú skili það hráefni sem áður var hent á fjórða tug milljarða króna á ári. Þarna er um að ræða afurðir á borð við lýsi, lifur, hrogn og hausa sem áður var lítill gaumur gefinn en skila nú þessum risavöxnu upphæðum í þjóðarbúið.

Stærðirnar sem um er að tefla eru þó margfalt þetta.

Sigurjón segir að verðmæti þess sem komi upp úr sjó sé um 280 milljarðar króna en án þeirrar þekkingar og kunnáttu sem Íslendingar hafa komið sér upp fengjust aðeins um 150 milljarðar króna fyrir aflann. Og hann nefnir sem dæmi að áður hafi saltfisknýting verið 44% en sé nú 58%, í flakavinnslu hafi þótt gott að vera með 42% nýtingu en hún sé nú 50%, og í léttsöltun hafi nýtingin verið 42% en sé nú allt að 70%.

Stundum er talað um sjávarútveg eins og hann snúist aðeins um að moka fiskinum upp úr sjónum og að þar komi þekking og kunnátta hvergi nærri. Eins og þessar tölur sýna er þetta víðs fjarri raunveruleikanum.

Þekking og kunnátta í meðferð aflans eru ekki síður mikilvæg en veiðarnar sjálfar. En þessi þekking og bætta nýting aflans varð ekki til af sjálfu sér og hún hefði ekki orðið til ef ekki væru til öflug fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa séð sér hag í að vinna að umbótum og hafa haft til þess getu.

Kvótakerfið íslenska hefur stuðlað að miklum áhuga útgerðarfyrirtækja á að ná sem mestu út úr þeim afla sem þau hafa haft heimildir til að veiða og að veiða hann á sem hagkvæmastan hátt og á réttum tíma, sem einnig skiptir máli. Í því sambandi má benda á að Sigurjón Arason nefnir að ekki sé tilviljun að margar stærri útgerðir hætti þorskveiðum í júní og júlí, þá sé þorskurinn laus í holdum og lélegri markaðsvara en á öðrum tímum. Og hann segir að menn þurfi að passa sig að missa ekki þorskveiðina úr böndum eins og hann telur að gerst hafi tvö síðustu sumur.

Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís og prófessor við HÍ

Þetta er nokkuð sem óhjákvæmilegt er að hafa til hliðsjónar við þá skoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem nú á sér stað. En við þá skoðun verður ekki síst að líta til þess hverju stjórnkerfi fiskveiða hér við land hefur áorkað á síðustu áratugum. Sú gríðarlega aukning aflaverðmætis sem náðst hefur fram er engin tilviljun og hefði aldrei náðst ef hér hefði ekki verið unnið eftir skynsamlegu kerfi sem ýtti undir skilvirkni og hagkvæmni.

Og þar sem tækifærin til að auka verðmæti sjávarfangs eru enn til staðar er mikilvægt að þeir sem ákvarðanir taka um framtíðarfyrirkomulag  sjávarútvegsins dragi rökréttar ályktanir af sögunni í stað þess að horfa fram hjá þessari mikilvægu reynslu.

Enginn gerði sér í hugarlund fyrir um þremur áratugum að hægt væri að ná jafn miklum árangri og raun ber vitni í þessum efnum og í dag er engin leið að spá um hversu miklu tækifærin sem bíða í hafinu umhverfis landið geta skilað þjóðarbúinu sé rétt á málum haldið.

Það eina sem reynslan hefur kennt okkur og hægt er að fullyrða er að með því að viðhalda skynsamlegu stjórnkerfi fiskveiða og snúa af þeirri óheillabraut sem síðasta ríkisstjórn markaði er hægt að ná gríðarlegum efnahagslegum árangri fyrir þjóðarbúið. Þar er um að ræða stærðir sem geta haft veruleg áhrif á lífsgæði allra landsmanna innan fárra ára og áratuga.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Kraftaverk í makrílnum

Ítarlegt viðtal var við Sigurjón Arason, yfirverkfræðing hjá Matís, í Morgunblaðinu um sl. helgi. Þar fer Sigurjón yfir víðan völl í sjávarútvegi. Viðtalið má að hluta til finna hér.

„Hafið er fullt af ónýttum tækifærum,“ sagði Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís. Hann fékk nýlega framgang í prófessor í matvælaverkfræði við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (HÍ) og hélt kynningarfyrirlestur í því tilefni s.l. fimmtudag.

„Öll verkefni mín hafa verið í kringum fisk og fiskiðnað,“ sagði Sigurjón í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að starf sitt hefði hann unnið í breiðu samstarfi við mörg fyrirtæki  og er brú á milli háskólasamfélagsins og fiskiðnaðarins. Með með framgangi í prófessorsstöðu sé verið að gera þau tengsl sýnilegri.

Fiskur hefur verið veiddur hér frá aldaöðli. En hverju hefur fræðimennskan skilað sjávarútvegi?

„Við erum að fá um 280 milljarða fyrir það sem kemur upp úr sjó. Ef við hefðum ekki alla þessa þekkingu og færni værum við að fá svona 150 milljarða fyrir sama afla. Við fáum 40% verðmætaaukningu vegna þekkingar. Þegar við vorum að byrja í doktorsverkefnum tengdum fiskvinnslu vorum við með saltfisknýtingu upp á 44%. Nú er hún um 58%. Í flakavinnslu þótti gott að vera með 42% nýtingu, nú er hún um 50%. Í léttsöltun er verið að tala um 65-70% nýtingu í staðinn fyrir 42% nýtingu hér áður fyrr,“ sagði Sigurjón.

Tækifæri í stað úrgangs

Gríðarleg bylting hefur orðið varðandi hráefni sem áður var kallað „úrgangur“. Sigurjón kveðst hafa lagt það hugtak niður fyrir 15 árum. Í stað þess að tala um „úrgang“ sá hann tækifæri. Hann sagði að þessi tækifæri séu farin að skila þjóðarbúinu 30-40 milljarða tekjum á ári. Þar á meðal eru afurðir eins og lýsið, lifrin, hrognin og hausarnir.

Mikil tækniþróun

„Það hefur verið mjög mikil og skemmtileg þróun í kringum fiskiðnaðinn og hún hefur magnast upp á síðkastið,“ sagði Sigurjón. Hann nefndi þekkingarfyrirtæki eins og 3X, Skagann, Marel, Trackwell og fleiri. „Síðastliðin tíu ár hefur orðið gífurleg aukning sem hefur verið knúin af þörf atvinnugreinarinnar. Meðal annars varð til AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi. Rannsóknarfé úr honum hefur verið stýrt mjög markvisst eftir markaðsþörfum á afurðum og búnaði.“

Á bakvið gott verð sem fæst fyrir ferskan fisk í dag liggur gríðarlega mikil vinna við að bæta flutningaferla, kælingu og geymsluþol.

„Fyrir tíu árum var geymsluþol á ferskum þorski sjö dagar en nú er það 12-14 dagar. Þarna eiga stóru fyrirtækin eins m.a. Brim, HB Grandi, HG og Samherji mikinn heiður. Þau hafa fylgt okkur mjög fast eftir í að þróa nýja ferla. Þá er kominn nýr ferskfiskkassi sem eykur geymsluþolið.“

Aukið geymsluþol gerir kleift að flytja fersk flök út með flutningaskipum sem kostar um einni evru minna á hvert kíló en með flugi. Veruleg aukning varð í útflutningi ferskra flaka með skipum frá 2010 til 2012. Árið 2012 nam útflutningur ferskra flaka með skipum um 44% af öllum slíkum útflutningi. Skipaútflutningurinn skilaði þá um 13 milljörðum króna eða 39% af útflutningsverðmæti ferskra flaka.

Megnið af ferska fiskinum sem flutt er út er þorskur. Þótt oft sé talað um flök eru það fyrst og fremst þorskhnakkar, fremsti og þykkasti bitinn af flakinu, sem fara ferskir í útflutning.

„Þegar við vorum að byrja var hnakkastykkið um 33% af flakinu en nú er það orðið 50%. Mælingar sýndu að við gátum farið aftar á flakið og fengið sömu áferð,“ sagði Sigurjón. Hann sagði að á árum áður hefðum reynt að stytta bilið milli fiskneytandans og framleiðandans. Með ferskum flökunum og þorskhnökkum hefðum við hitt naglann á höfuðið.

Forsenda þess að hægt sé að flytja út ferskan fisk er að kæla aflann mikið um leið og hann kemur um borð og viðhalda kælingunni. Einnig að fiskurinn sé rétt blóðgaður og slægður. Sigurjón sagði að stóru útgerðarfyrirtækin hafi lagt mikla áherslu á góða kælingu og blóðgun.

Þorskurinn er kóngurinn

Stundum tala menn með söknuði um stóru fiskréttaverksmiðjurnar sem Íslendingar áttu í útlöndum. Þær söguðu niður fiskblokkir og seldu fiskstauta í raspi. Sigurjón sagði að það hefði verið lágvöruverðsfiskur sem hefði ef til vill skilað um 500 krónum á kíló á núvirði á meðan ferskir þorskhnakkar skili 1.800 krónum á kíló. Úr því sem eftir er af flakinu hafa verið þróaðar nýjar vörur eins og „baby“ flök, miðstykki eða stirtlur sem skila 800-1.100 krónum á kíló.

„Þessar afurðir við hliðina á hnakkanum eru farnar að skila miklu meiri verðmætum en blokkin gerði nokkurn tíma,“ sagði Sigurjón. Hann sagði að fiskréttaverksmiðjur myndu þó getað skapað ákveðin tækifæri ef við færum t.d. að framleiða mannamat úr kolmunna.

„Við viljum hafa þorskinn sem kónginn. Svo getum við tekið litla bróður kóngsins, kolmunnann, sem er hvítur vöðvi og mundi henta mjög vel í blokk og niðursagaða stauta,“ sagði Sigurjón.

Kraftaverk í makrílnum

„Þegar við byrjuðum að veiða makríl 2007 fór fyrst allt í bræðslu á meðan við vorum að ná okkur í veiðireynslu gagnvart útlendingum. Þeir sögðu að við gætum aldrei tekið þennan makríl og unnið hann til manneldis því við veiddum hann á röngum árstíma. Það máttu útlendingar ekki segja við Íslendinga. Þá fórum við allir í einn flokk um nýtingu á makríl. Síldarvinnslan í Neskaupsstað, Ísfélag Vestmannaeyja, HB Grandi, Samherji og allir aðrir lögðust á eitt.Við snerum þessu við á einum vetri. Árið 2008 fóru 90% af makrílnum í bræðslu en árið 2009 fóru 90% til manneldis,“ sagði Sigurjón. Galdurinn fólst í því að snöggkæla nýveiddan makríl um borð í skipunum niður í -1,5°C til -1,8°C. Ískristallar byrja að myndast í holdi makrílsins við -2,2°C. Farið var að miða veiðarnar við kæligetu skipanna en ekki við veiðigetu þeirra. Með þessari snöggu og miklu kælingu tókst að koma í veg fyrir að rauðátan æti sig út úr maga makrílsins og skemmdi holdið. Eins var makríllinn mjög feitur og hætt við að vöðvarnir spryngju og að hann yrði lausholda. Kælingin kom í veg fyrir að fiskurinn færi í mauk.

Svipaðri aðferð hefur verið beitt við þorsk sem er fluttur út ferskur. Hann er kældur niður í -1°C um borð því fyrstu ískristallarnir myndast í holdi þorsksins við -0,9°C. Sigurjón sagði að Íslendingar hefðu aflað mikillar þekkingar í þessum fræðum á heimsvísu.

En hvar liggja næstu tækifæri?

Sigurjón sagði t.d. hægt að skoða kolmunnann betur með tillit til þess að nýta hann til manneldis. Nú er farið að þurrka kolmunna og selja hann hertan til Nígeríu. Hann er mjög góður sem harðfiskur. Þá eru mörg önnur tækifæri tengd framhaldsvinnslu á uppsjávarfiski, að mati Sigurjóns. Eins eru tækifæri tengd alls konar tækni í samvinnu við fyrirtæki sem smíða vélar fyrir sjávarútveginn og flytja þannig út íslenska tækni og þekkingu.

Svo eru miklir möguleikar tengdir nýtingu á þörungum og þangi í hafinu hringinn í kringum landið. Ákveðnar skelfisktegundir væri hægt að skoða mun betur en gert hefur verið. Sigurjón nefndi meiri vinnslu á ígulkerum og skelfiski. Þá liggja mörg tækifæri í að koma tilbúinni vöru nær markaðnum.

Enn er margt óunnið varðandi betri meðferð og nýtingu á bolfiski, að mati Sigurjóns. Þar þarf má t.d. nefna að blóðga aflann rétt til að tryggja að blóðið fari úr fiskinum en verði ekki eftir í vöðvunum. Með því fæst dýrari og betri vara en ef fiskurinn er illa blóðgaður.

„Markaðurinn er ekki að biðja um bleikan þorsk heldur hvítan. Við erum í samkeppni við ódýrari tegundir eldisfisks með hvíta vöðva eins og asíska fiskinn pangasius. Hann æðir um alla Evrópu og er mjög ódýr. Ef við viljum breyta þorskinum í pangasius-tegund þá lækkum við verðið um 50-70% og það viljum við ekki,“ sagði Sigurjón. „Þorskurinn á að vera kóngurinn í hvíta vöðvanum og hann á að meðhöndlast þannig, hvort sem er á stórum bátum eða litlum.“

Að veiða þorsk á réttum tíma

Sigurjón sagði að menn þurfi að passa sig að missa ekki þorskveiðina úr böndunum eins og hann telur hafa gerst í sumar og í fyrrasumar.

„Það á að taka fiskinn á réttum árstíma. Þorskurinn er lélegastur þegar verið er að taka hann á smábátunum og þeir koma með hann ókældan í land, sem ég er alls ekki ánægður með. Við höfum sýnt fram á það með okkar vísindum að þorskurinn er lélegur í júní,“ sagði Sigurjón. Hann benti á að margar stærri útgerðir hreinlega hætti þorskveiðum í júní og júlí og það sé engin tilviljun. Þá sé þorskurinn laus í holdum. Það að veiða hann þá sé eins og að slátra ánum nýbornum.

Mörg tækifæri í landbúnaði

Sigurjón hefur mikið beint athyglinni að sjávarútvegi, en eru álíka góð tækifæri í landbúnaði?

„Það eru mjög mörg ónýtt tækifæri í landbúnaði. Þar þarf miklu meiri rannsóknir, þróun og skilning,“ sagði Sigurjón. Hann nefndi til dæmis að þótt við höfum náð langt á mörgum sviðum í framleiðslu landbúnaðarafurða séu Íslendingar sólgnir í útlenska osta. Það sé vísbending um að þar séu tækifæri til frekari þróunar hér á landi.

Hvað varðar kjötvinnslu nefndi Sigurjón að fleira sé til en frosið lambakjöt. Ekki sé mikið um þurrkun á kjöti hér en í útlöndum kaupi fólk mikið af þurrkuðu kjöti, t.d. létt reyktum og létt söltuðum og þurrkuðum svínalærum.

Sigurjón sagðist því miður sjá hér bæði slæmt kjöt og slæman fisk á veitingahúsum. Ýmist hafi kjötið ekki fengið að hanga nógu lengi eða fiskurinn ekki farið rétt í gegnum dauðastirðnun. Bæði kjöt og fiskur þurfi að meyrnast rétt.

„Fiskur er 800 sinnum viðkvæmari en lambalæri og það verður að meðhöndla fisk með 800 sinnum meiri varkárni en lærið, það má ekki henda fiski eins mikið til og menn gera. Þú mátt henda kjötinu eins mikið og þú vilt. Það verður bara meyrara við það,“ sagði Sigurjón. Hann sagði of algengt að sjá fiski sturtað á milli kera. Það fari ekki vel með fiskinn.

Viðtalið, sem tekið var af Guðna Einarssyni, birtist fyrst í Morgunblaðinu, 19. október sl.

Fréttir

Stefnumót hönnuða og bænda – myndband

Stefnumót hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands, í samstarfi m.a. við Matís, þar sem vöruhönnuðum og bændum er teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki.

Rannsóknarverkefnið var þriggja mánaða ferli sem endurtekið var þrisvar sinnum á tímabilinu 2008–2011. Hugmyndir úr námskeiðinu voru valdar inn í rannsóknarverkefnið með það að markmiði að afhenda bændunum fullþróaða vöru sem tilbúin er til framleiðslu í lok verkefnisins.

Rannsóknarverkefnið byggðist á þverfaglegri samvinnu þar sem hönnunarteymið og býlið vinna með sérfræðingum Matís, matreiðslumeisturum og Innovit. Í ferlinu er mikið lagt upp úr því að skapa vörunni sterka sérstöðu og heildarupplifun.

Þær afurðir sem hafa verið þróaðar í rannsóknarhlutanum eru Rabarbarakaramella Rabarbíu (Langamýri á Skeiðum), Sláturtertan fyrir Möðrudal á Fjöllum, Skyrkonfekt Rjómabúsins á Erpsstöðum og Rúgbrauðsrúlluterta og snúðar fyrir Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Hönnunarstjórar Rannsóknarverkefnisins voru Brynhildur Pálsdóttir og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir. Verkefnisstjóri og ábyrgðarmaður var Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun.

Myndband sem lýsir vel aðkomu Irek Klonowski hjá Matís að verkefninu.

Fréttir

Framleiðsla á sæeyrum og sæbjúgum hlýtur verðlaun

Sæbýli ehf. á Eyrarbakka hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði vísinda og atvinnumála. Sæbýli er að hefja framleiðslu á sæeyrum og sæbjúgum til útflutnings og nýtir til þess íslenskt hugvit, heitt vatn og hreinan sjó. Framleiðslan hjá Sæbýli er í samstarfi við Matís.

Tvö sunnlensk fyrirtæki og ein skólastofnun hlutu í gær viðurkenningu og fjárstyrk frá verðlauna- og styrktarsjóði Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi. Viðurkenningarnar voru afhentar á lokahófi umdæmisþings Rótarý á Íslandi en þingið fór fram á Selfossi um helgina.

Samtals var 1,1 milljón króna ráðstafað til þessara viðurkenninga og en hæsta styrkinn hlaut Fjölbrautarskóli Suðurlands, 500 þúsund krónur, „fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði mennta- og samfélagsverkefna – fyrir menntun vistmanna á Litla Hrauni og Sogni – sem skilar þeim sem betri borgurum til samfélagsins.“

Ennfremur fékk Sæbýli ehf. á Eyrarbakka viðurkenningu „fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði vísinda og atvinnumála. Sæbýli er að hefja framleiðslu á sæeyrum og sæbjúgum til útflutnings og nýtir til þess íslenskt hugvit, heitt vatn og hreinan sjó.“ Fjárstyrkur upp á 300 þúsund krónur fylgdi.

Þá fékk Fengur ehf. í Hveragerði viðurkenningu og að sama skapi 300 þúsund krónur í styrk „fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði atvinnumála en auk annarra verkefna endurvinnur Fengur spón fyrir íslenskan landbúnað og nýtir til þess íslenskt hugvit, timburúrgang og vistvæna orku.“

Á myndinni hér til hliðar má sjá þegar verðlaunin voru veitt en á myndinni er einmitt starfsmaður Matís, Ragnar Jóhannsson, sem tók við viðurkenningu fyrir hönd Sæbýlis ehf.

Frétt þessi birtist fyrst á http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/10/13/verdlaunad_fyrir_framurskarandi_framtak/

Fréttir

Marinox slær í gegn í Eurostars

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Marinox ehf. hlaut á dögunum veglegan rannsókna- og þróunarstyrk á vettvangi Eurostars áætlunarinnar sem 33 ríki í Evrópu eru aðilar að. Verkefni Marinox og samstarfsaðila var metið fjórða besta verkefnið af 594 verkefnum.

Fjórða besta Eurostars verkefnið

Verkefnið var metið fjórða besta verkefnið af 594 verkefnum sem sótt var um styrk fyrir og var samkeppnin um styrkveitingu hörð, en þetta var í tíunda skiptið sem lýst var eftir umsóknum. Eurostars áætlunin miðar að því að styrkja smá og meðalstór fyrirtæki í að koma vörum, ferlum eða þjónustu til almenningsnota á markað. Verkefninu er stýrt af Marinox en samstarfsaðilar eru Matís og Due Miljö í Noregi. Tækniþróunarsjóður styrkir hlut Íslands í verkefninu.

Styrkurinn er mikil viðurkenning fyrir Marinox og þá brautryðjandi rannsókna- og þróunarvinnu sem þar er stunduð. Verkefnið snýr að því að fullvinna verðmæt lífvirk efni úr íslenskum stórþörungum sem meðal annars má nota sem fæðubótarefni eða sem íblöndunarefni í ýmsar neytendavörur. Marinox er nýsköpunarfyrirtæki runnið undan rifjum Matís og hefur síðustu ár þróað aðferðir til að einangra virk efni úr sjávarþörungum og afurðir sem innihalda þau. Marinox framleiðir meðal annars UNA Skincare húðvörurnar sem innihalda virk innihaldsefni úr sjávarþörungum.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir dr. Hörður G. Kristinsson hjá Marinox ehf. og um Eurostars Snæbjörn Kristjánsson (skr@nmi.is) landstengiliður Eurostars hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Fréttir

Kynningarfyrirlestur – nýskipaður prófessor Sigurjón Arason

Þann 17. október n.k. flytur Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og nýskipaður prófessor í matvælaverkfræði við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, erindi í tilefni að ráðningu sinni.

Á Heilbrigðisvísindasviði hefur verið tekin upp sú nýbreytni að halda upp á framgang eða ráðningu nýrra prófessora með sérstökum kynningarfyrirlestri þeirra. Athafnirnar hefjast með stuttu yfirliti yfir helstu störf viðkomandi prófessors, en svo tekur hann við flytur erindi um störf sín og framtíðarsýn í kennslu og rannsóknum. Í lok athafnarinnar gefst svo tækifæri til þess að spjalla og gleðjast með hinum nýja prófessor.


Tilgangur kynningarfyrirlestranna er að vekja athygli á hinum nýja prófessor, störfum hans og áherslum, ekki síst til þess að auka tengsl og samstarf innan skólans, en einnig til þess að hefja prófessorsstarfið til vegsemdar.

Fréttir

Viskí úr íslensku byggi hlutskarpast í keppni um nýjar hugmyndir í matvælaframleiðslu

Fyrirtækið Þoran sem þróar nú framleiðslu á íslensku gæðaviskí úr byggi hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppni Matís og Landsbankans fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggðar eru á íslensku hráefni og hugviti.

Fyrstu verðlaun eru 1 milljón króna frá Landsbankanum og mikilvæg tæknileg ráðgjöf og aðstaða til að vinna áfram að hugmyndinni frá Matís. Á myndinni má sjá fulltrúar Landsbankans og Matís ásamt Birgi Má Sigurðssyni og Bergþóru Aradóttur fyrir hönd sigurhugmyndarinnar Þoran – íslenskt gæðaviský.

Aðrar hugmyndir sem skara þóttu fram úr að þessu sinni voru:

  • GeoSilica – Kísilsvifvökvi sem fæðubótarefni
  • Íslandus – drykkja- og ísframleiðsla úr mysu
  • Bygg og þarapasta – þróun og framleiðsla á hollu pasta

Aðstandendur þessara fjögurra viðskiptahugmynda fá nú tækifæri til að kynna hugmynd sína fyrir fjárfestum og vinna áfram að útfærslu þeirra með aðstoð sérfræðinga Matís.

Nýsköpunarkeppnin bar yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað” og vísar heitið til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur með því að sagt er að „gera eigi eitthvað annað”, eða til óskilgreindra úrræða sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni skapast einmitt tækifæri til að gera „eitthvað annað”.

Aðstandendur keppninnar ætla henni að vera öflugur hvati til uppbyggingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja á sviði matvæla og líftækni, með varanlega verðmætasköpun að leiðarljósi.

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís segir: „Sigurvegarar í keppninni að þessu sinni settu fram einstaklega skemmtilega hugmynd að óhefðbundinni matvöru sem á fyrirtaks markaðsmöguleika. Það ánægjulega er að ef ekki hefði verið fyrir þessa keppni hefðum við sjálfsagt ekki komist í samstarf við Þoran svona fljótt. Sú staðreynd ein og sér styrkir mig í þeirri trú að ákvörðun Landsbankans og Matís um að efna til samkeppni af þessu tagi hafi verið hárrétt. Hún skapar okkur góða möguleika á að búa til vettvang sem orðið getur ríkur þáttur í aukinni verðmætasköpun á sviði matvælaframleiðslu og líftækni.“

Fréttir

Nýr framkvæmdastjóri hjá Marinox

Brynhildur Ingvarsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Marinox ehf., framleiðanda UNA skincare húðvörulínunnar.

Brynhildur lauk MA-prófi í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston 2002 og BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995. Hún gegndi síðast starfi markaðsstjóra EGF hjá Sif Cosmetics þar sem hún tók þátt í uppbyggingu fyrirtækisins og vörumerkjanna EGF og BIOEFFECT™. Brynhildur var áður sviðsstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands í aðdraganda uppbyggingar og enduropnunar safnsins 1. september 2004. Hún er einn af höfundum grunnsýningar safnsins og stýrði miðlunarsviðinu á fyrstu árunum eftir opnunina.

Þegar Brynhildur var spurð út í nýja starfið sagði hún Marinox mjög áhugavert fyrirtæki með mikla möguleika á ýmsum sviðum. „Marinox er eitt af þessum spennandi nýsköpunarfyrirtækjum sem byggir á traustum rannsóknum og eldmóði stofnendanna. Rannsóknir þeirra hafa leitt í ljós að úr einni tegund af sjávarþörungum sem vex við Íslandsstrendur er hægt að vinna mjög lífvirk efni með mikla andoxunarvirkni, sem eru ekki bara eftirsótt sem hráefni í snyrtivörur, heldur einnig sem verðmæt fæðubótarefni og íblöndunarefni í matvæli svo eitthvað sé nefnt,“ segir Brynhildur.

Marinox ehf. er ungt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og framleiðslu á lífvirkum efnum úr sjávarþörungum og afurðum sem innihalda slík efni. Fyrsta vörulína fyrirtækisins, UNA skincare™ húðvörurnar, kom á markað fyrir rúmu ári. Rannsóknar- og þróunarvinna vörulínunnar fór fram í náinni samvinnu við Matís, bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki. UNA skincare húðvörurnar innihalda einstök lífvirk efni sem unnin eru úr íslenskum sjávarþörungum en vísindamenn Marinox hafa þróað einstæða aðferð til að einangra og framleiða virk efni úr þessari vannýttu íslensku auðlind – aðferð sem tryggir hámarksvirkni efnanna. Vörumerkið UNA skincare™ er einungis hið fyrsta af mörgum sem eru í bígerð hjá Marinox enda tækifæri til sóknar á markaði fjölmörg.

Frekari upplýsingar veita Hörður G. Kristinsson, stjórnarmaður og stofnandi Marinox (858-5063) eða Brynhildur Ingvarsdóttir (860-9650).

Fréttir

Íslensk sæbjúgnasúpa slær í gegn í Köln

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, Helga Franklínsdóttir nemendur við Háskóla Íslands og Sigríður Hulda Sigurðardóttir nemandi við Listaháskóla Íslands hlutu sérstök verðlaun dómnefndar í Ecotrophelia, sem er keppni í vistvænni nýsköpun matvæla.

25 dómurum frá 18 þátttökulöndum og 7 frá stórfyrirtækjum og Evrópusambandinu fannst mikið til sæbjúgnasúpunnar koma og veittu íslensku þátttakendunum sérstök verðlaun fyrir að vera með áhugaverðustu nýju hugmyndina. Einn dómari var frá Íslandi en það var Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Óhætt er að segja að árangur Íslendinganna sé frábær þegar haft er í huga að um 120 lið tóku þátt í landskeppnum og 18 lið komust áfram í sjálfa aðal keppnina sem var haldin í Köln í Þýskalandi.

Þess má geta að í kínverskri matargerð séu sæbjúgu mest notuð í súpur en það geti tekið nokkra daga að elda hana þar sem undirbúningurinn er flókinn og tímafrekur. Því var hugmyndin að gera vöru sem myndi henta kínverskum markaði en yrði aðgengileg fyrir neytandann, fljótleg í eldun og myndi henta vel fyrir langa flutninga. Niðurstaðan var því bollasúpa með frostþurrkuðum sæbjúgum sem einungis þyrfti að hella soðnu vatni yfir og þá yrði hún tilbúin til neyslu en súpan ber nafnið Hai Shen.

Samstarf Ecotrofood verkefnis Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís og Háskóla Íslands gerir það að verkum að íslenskir nemendur taka þátt í Ecotrophelia nú annað árið í röð. Þá má nefna að Samtök iðnaðarins, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð gáfu verðlaun í íslensku landskeppninni og að Vöruþróunarsetur sjávarafurða á Matís hefur stutt verkefnið fyrir keppnina í Köln.

Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og dósent við Háskóla Íslands, hefur leiðbeint nemendunum og verið þeim til stuðnings ásamt mörgum starfmönnum Matís.  Auk þess hafa aðstandendur nemenda stutt dyggilega við bakið á þeim.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís, Helga Franklínsdóttir (690-5255) og Berglind Ósk Alfreðsdóttir (865-1125).

Fréttir

Engar deilur á Norðurlöndunum um þennan makríl

Nú er ný afstaðin Norðurlandakeppni í smáframleiðslu matvæla sem haldin var í Östersund í Svíþjóð. Til keppninnar bárust um 600 vörur í ýmsum flokkum.

Af þeim 40 verðlaunum sem veitt voru, unnu íslenskir framleiðendur þrenn verðlaun. Bronsið hlaut Klaus Kretzer frá Skaftafelli fyrir Jöklabita sem er ölpylsa unnin úr kindakjöti. Einnig fékk Klaus silfur verðlaun fyrir Hnjúk sem er þurrverkaður og reyktur kinda hryggvöðvi.

Besta varan í flokki heitreykts fisks, sem hlaut þar með gullverðlaunin, var heitreykur makríll frá Sólskeri á Hornafirði. Allar þessar vörur hafa verið þróaðar í Matarsmiðjum Matís sem sýnir enn og aftur mikilvægi þess að frumkvöðlum og smáframleiðendum í matarhandverki sé gert kleift að taka sín fyrstu skref á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt sem síðar, ef vel gengur, getur leitt til fleiri atvinnutækifæra og fjölbreyttara vöruúrvals.

Nánar er fjallað um keppnina á heimasíðu Ny Nordisk Mat og heimasíðu Eldrimner.

Heimasíða Klaus Kretzer.

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir,  gunna@matis.is (858-5049) og Óli Þór Hilmarsson olithor@matis.is (858-5099).

IS