Fréttir

Greining nóróveirusmita á Íslandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hjá Matís hafa verið þróaðar sértækar aðferðir til að greina nóróveirur í matvælum og vatni, en veirurnar eru bráðsmitandi og geta valdið mjög slæmum iðrakveisum hjá fólki.

 Nóróveirur finnast þar sem saurmengun hefur átt sér stað og það þarf næmari aðferð til að greina þær en hefðbundnar aðferðir sem notaðar eru til að greina saurmengun í matvöru og vatni.

Aðferðirnar sem Matís hefur þróað til greininga á nóróveirum eru sameindalíffræðilegar aðferðir með svokallaðri PCR tækni (e. Polymerase Chain Reaction). Notkun PCR aðferða til örverugreininga hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár, en með tækninni er nú hægt að greina tilvist nóróveira í matvælum og vatni og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu veiranna. Hópsýkingar af völdum nóróveiru geta verið alvarlegt vandamál þar sem þær koma upp og því mikilvægt að hindra útbreiðslu veiranna.

Það eru einkum matvæli sem neytt er hrárra eða lítið eldaðra, s.s. skelfisks, grænmetis og ávaxta, sem eru varhugarverð m.t.t. nórósýkinga. Veiran þolir frost en drepst við hitun yfir 60°C. Neysla skelfisks var löngum talin helsta ástæða matvælasýkinga af völdum nóróveira og hópsýkingar af völdum mengaðs skelfisks eru algengar. Fjöldi hópsýkinga sem ekki hefur mátt rekja til neyslu skelfisks hefur hins vegar beint sjónum manna að öðrum matvælum, einkum tilbúnum réttum, ávöxtum, grænmeti og drykkjarvatni sem áhættuþáttum.

Beitum nýjum greiningaraðferðum

„Matís hefur sett upp aðferðir til greiningar á nóróveirum í drykkjarvatni, yfirborðsvatni og matvælum og getum við nú greint nóróveirur af genótýpu I og II, en það eru þær týpur sem einkum sýkja menn,“ segir Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís.