Fréttir

Umhverfismengun á Íslandi – ráðstefna 22. mars 2013

Önnur ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi verður haldin föstudaginn 22. mars 2013 í Nauthól, Reykjavík.

Áhersla verður lögð á áhrif vatnsnýtingar, landnýtingar og mengunar í vatni og sjó.

Nánari upplýsingar:
Aðgangur er ókeypis en þar sem sætafjöldi er takmarkaður er mikilvægt að skrá þátttöku. Vinsamlegast sendið nafn, fyrirtæki og tölvupóstfang á umhverfi@matis.is. Síðasti skráningadagur er 20. mars 2013.

Ráðstefnuriti verður ekki dreift á staðnum heldur má nálgast rafræna útgáfu til útprentunar hér á síðunni innan örfárra daga.

Skipulagsnefnd:

Vísindanefnd:

  • Hrund Ólöf Andradóttir, Háskóli Íslands
  • Kristín Ólafsdóttir, Háskóli Íslands
  • Gunnar Steinn Jónsson, Umhverfisstofnun
  • Hermann Sveinbjörnsson, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Anna Kristín Daníelsdóttir, Matís
  • Helga Gunnlaugsdóttir, Matís
  • Hrönn Jörundsdóttir, Matís
  • Sigurður Emil Pálsson, Geislavarnir ríkisins
  • Gerður Stefánsdóttir, Veðurstofa Íslands
  • Sólveig Rósa Ólafsdóttir, Hafrannsóknastofnunin

Fréttir

Tæpum helmingi þótti hrossakjöt betra en nautakjöt

Matís stóð fyrir óformlegri könnun á Háskóladeginum hvort gestir og gangandi gætu greint á milli hrossakjöts og nautakjöts.

Í stuttu máli sagt gátu þeir sem tóku þátt giskað í 50% tilfella á rétta kjöttegund. Ennfremur þótti um 40% aðspurðra hrossakjötið betra kjöt.

Fréttir

Er hvítur fiskur úr Norður-Atlantshafi besti fiskurinn?

Er hvítfiskur, t.d. þorskur og ýsa, frá Norður-Atlantshafi betri matur en ódýrt samkeppnishráefni frá Asíu og Afríku? Eru umhverfisáhrifin af veiðum þorsks og ýsu minni en af samkeppnisvörunum?

Þessum spurningum og mörgum öðrum er reynt að svara í verkefninu Whitefish sem Íslendingar leiða en aðrir þátttakendur er t.d. frá Noregi, Sviðþjóð, Bretlandi og Hollandi. Miðvikudaginn 13. mars fer fram í húsakynnum Matís ohf. að Vínlandsleið 12 í Reykjavík opinn vinnufundur í verkefninu .

„Miðað við þá reynslu sem fengist hefur varðandi umhverfismerkingar sjávarafurða þá eru upplýsingar sem þessar mikilvægastar fyrir heild- og smásöluaðila vörunnar. Fæstir neytendur leggja á sig að sökkva sér ofan í þessa þætti en þeir treysta því aftur á móti að sá sem selur þeim sjávarafurðir sé að bjóða vöru sem hafi ásættanleg umhverfisáhrif. Stórar verslunarkeðjur hafa sín eigin viðmið hvað þetta varðar og með WhiteFish-verkefninu erum við að stíga skrefið enn lengra en gert er með „hefðbundnum“ umhverfismerkingum og reikna umhverfisáhrifin út fyrir alla virðiskeðju afurðanna“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.

„Á síðustu misserum hefur villtur fiskur úr N-Atlantshafi mætt aukinni samkeppni á mörkuðum frá ódýrum ræktuðum fiski frá Asíu og Afríku s.s. pangasius og tilapia. Með WhiteFish-verkefninu vonumst við til að geta sýnt fram á að okkar fiskur hafi minni umhverfisáhrif en þessi samkeppnisvara, þegar allt er talið til.“

Mikið liggur undir enda hörð samkeppni á þessum markaði og því til mikils að vinna að við komum því til skila til mögulegra kaupenda að það er fleira en verð sem skiptir máli þegar fiskur er annars vegar.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson.

Fréttir

Matís býður nemendum í heimsókn

Matís býður nemendum í heimsókn föstudaginn 15. mars kl. 15-17:30. Þetta er góður vettvangur til að kynna sér matvæla- og líftækniiðnaðinn, hvort sem ætlunin er að fara í framhaldsnám eða kynnast möguleikum á starfi eftir að námi lýkur.

Nánari upplýsingar má finna hjá Steinari B. Aðalbjörnssyni markaðsstjóra Matís.

Fréttir

Hrossakjöt! Nautakjöt! Þekkja Íslendingar muninn?

Háskóladagurinn 2013 fer fram á morgun. Í Háskóla Íslands verður mikið fjör og þar munu nemendur, kennarar og starfsmenn Matís bjóða upp á Kjötáskorunina 2013 við bás Matvæla- og næringarfræðideildar á Háskólatorginu,

Kjötáskorunin fer fram á milli kl. 13 og 14:30. Tilgangur áskorunninnar er að leyfa Íslendingum að meta hvort þeir finni mun á milli hrossakjöts annars vegar og nautakjöts hins vegar en ekki síður að vekja áhuga á þeim verkefnum sem matvælafræðingar um allan heim starfa að.

Tækifærin eru mikil í íslenskri matvælaframleiðslu og á því eru landsmenn að átta sig. Hægt er að byggja upp varanleg verðmæti í matvæla- og líftækniiðnaði, hvort sem slíkt er hugsað með útflutning í huga eða sem viðbót við það sem Ísland hefur upp á að bjóða allan ársins hring, t.d. í ferðatengdri matvælaframleiðslu.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Nánar um matvælafræðina: www.framtidarnam.is

Nánar um háskóladaginn 2013: www.haskoladagurinn.is/

Fréttir

Opinn vinnufundur um mat á umhverfisáhrifum í virðiskeðjum fiskafurða

Miðvikudaginn 13. mars fer fram í húsakynnum Matís ohf. að Vínlandsleið 12 í Reykjavík opinn vinnufundur í verkefninu WhiteFish, sem styrkt er af 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins.

Verkefnið hefur að markmiði að þróa aðferðafræði og hugbúnað sem gerir framleiðendum þorsk- og ýsuafurða á einfaldan hátt kleift að framkvæma mat á sjálfbærni og umhverfisáhrifum afurða þeirra. Íslensk fyrirtæki og samtök gegna lykilhlutverki í verkefninu, en auk þeirra koma norskir, sænskir, breskir og hollenskir aðilar að verkefninu. 

Aukin krafa er um grænt bókhald í alþjóðlegum viðskiptum og hafa margar stærri verslunarkeðjur heims þegar tilkynnt að framleiðendur sjávarfangs sem halda grænt bókhald hafi forgang við innkaup. Fyrir smá- og meðalstór fyrirtæki getur verið afar kostnaðarsamt og flókið að uppfylla slíkar kröfur.

Verkefnið ber nafnið WhiteFish og er svokallað „rannsóknarverkefni til hagsbóta fyrir samtök smárra- og meðalstórra fyrirtækja“. Verkefnið, sem er fjármagnað af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins, mun standa yfir í þrjú ár og er heildarfjárhagsáætlun þess tæpar þrjár milljónir Evra.

„Markmið WhiteFish verkefnisins er að tryggja smáum- og meðalstórum fyrirtækjum í virðiskeðju þorsk og ýsuafurða aðgang að lausnum sem munu hjálpa þeim að halda skrá yfir hina fjölmörgu jákvæðu eiginleika hvítfisks úr norðaustur Atlantshafi. Þetta mun væntanlega veita framleiðendum forskot á markaði“ segir Petter Olsen hjá matvælarannsóknarstofnuninni Nofima í Noregi, sem leiðir verkefnið.

WhiteFish verkefnið er í eigu fimm iðnaðarsamtaka frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Innan samtakanna starfa rúmlega 1200 smá- og meðalstór fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta varðandi veiðar og vinnslu á þorski og ýsu.

Fjórar virðiskeðjur þorsk- og ýsuafurða innan áðurnefndra landa hafa verið valdar og á þeim mun verða framkvæmd vistferilsgreining (LCA). Mun sú greining reikna út umhverfisálag afurðanna í hverjum hlekk virðiskeðjunnar fyrir sig. Í framhaldi verður þróuð aðferðafræði og búnaður sem gerir framleiðendum kleift að reikna út umhverfisálag á einfaldan hátt, með hagnýtingu rekjanleika. Búnaðurinn verður svo sannreyndur innan verkefnisins.

WhiteFish verkefnið hefur nú staðið yfir í rúmlega eitt ár og á vinnufundinum verður greint frá ýmsum bráðabirgðaniðurstöðum og leitað eftir innleggi í áframhaldandi framgang verkefnisins frá þeim sem áhuga hafa.

Fundurinn er öllum opinn og þátttaka gjaldfrjáls, en þeir sem hyggjast taka þátt eru þó beðnir um að tilkynna þátttöku til jonas.r.vidarsson@matis.is

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.whitefishproject.org eða hjá Jónasi R. Viðarssyni í síma 422-5107

Fréttir

Örveruþing

Vorþing Örverufræðifélags Íslands verður haldið miðvikudaginn 6. mars 2013. Þess má einnig geta að um þessar mundir fagnar félagið 25 ára afmæli sínu.

Þingið verður haldið í húsakynnum Matís að Vínlandsleið og stendur yfir frá kl. 20:00 til 22:00. Á þinginu greina félagsmenn Örverufræðifélags Íslands frá nýlegum rannsóknum sínum með veggspjaldi og stuttri kynningu.

Þingið er opið öllum áhugasömum um örverurannsóknir á Íslandi.

Fréttir

Landsýn – vísindaþing landbúnaðarins

Framundan er vísindaþing landbúnaðarins, sem haldið verður í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri föstudaginn 8. mars n.k.

Greinilegt er samkvæmt dagskrá að þarna er von á mjög áhugaverðri umfjöllun um m.a. nýtingu lands og afurða. Guðjón Þorkelsson og Kolbrún Sveinsdóttir frá Matís munu flytja erindi í málstofu um „Sjálfbæra framleiðslu og heimaframleiðslu matvæla“ en hægt er að kynna sér nánar dagskrá þingsins á heimasíðu Skrínu.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís.

Fréttir

Breyting á starfsemi Matís

Nú um mánaðarmót munu verða breytingar á starfsemi Matís, á sviði efnagreininga. Markmið breytinganna er að auka fjárhagslega hagkvæmni og efla faglegan grundvöll efnagreininga enn frekar. Mikill samdráttur hefur því miður verið í kaupum hins opinbera á sviði efnagreininga tengdum matvælaeftirliti, þrátt fyrir auknar kröfur í kjölfar innleiðingar matvælalöggjafarinnar árið 2011.

Mikilvægt er fyrir Matís að gæta ýtrustu hagkvæmni í rekstri, án þess að það bitni á faglegum þætti þessara sérhæfðu mælinga. Nú stendur fyrir dyrum uppbygging tækjabúnaðar til varnarefnamælinga sem Matís hefur fjármagnað með styrkumsóknum, en til að möguelgt sé að reka slíkan tækjabúnað er nauðsynlegt að öll sérfræðiþekking nýtist sem best. Því er sérfræðiþekkingu á sviði efnagreininga safnað saman á einn stað í Reykjavík. Varnarefnamælingar á ávöxtum og grænmeti eru mjög mikilvægar til að tryggja öryggi neytenda.

Há húsaleiga Matís að Borgum hefur auk þess haft áhrif á þessa niðurstöðu en það liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir um aðrar breytingar á starfsemi fyrirtækisins á Akureyri. Matís hefur lagt áherslu á að hafa öfluga starfsemi sem víðast á landinu eins og sjá má á fjölda starfstöðva fyrirtækisins.

Fréttir

UNA húðvörur með lífvirkum efnum úr bóluþangi

Jákvæðar niðurstöður líftæknirannsókna Matís á undanförnum árum á þörungum og lífvirkni efna í þeim lögðu grunninn að fyrirtækinu Marinox sem nú hefur tekið til starfa.

Fyrstu framleiðsluvörurnar eru húðvörur undir vörumerkinu UNA. Þær eru nú þegar komnar á markað hér á landi en einnig er horft til framleiðslu fæðubótarefna og íblöndunarefna fyrir matvælaiðnað í framtíðinni.

Hörður Kristinsson, sviðsstjóri hjá Matís og Rósa Jónsdóttir, fagstjóri, stóðu að stofnun fyrirtækisins í samstarfi við Matís.

„Það má segja að Marinox sé formlegur farvegur fyrir okkar rannsóknir og rökrétt framhald af rannsóknum um margra ára skeið. Árið 2007 fórum við að skima fyrir efnum í þörungum með andoxunarvirkni og þær rannsóknir leiddu okkur að brúnþörungnum bóluþangi sem við ákváðum að vinna betur með. Nú erum við komin á það stig að hafa einangrað lífvirk efni úr bóluþanginu sem við höfum gert tilraunir með sem fæðubótarefni í matvælavinnslu og til framleiðslu á UNA húðvörunum. Andoxunarvirknin hjálpar húðinni að vinna á móti óæskilegum áhrifaþáttum sem við verðum fyrir í umhverfi okkar, vinnur á móti öldrun húðarinnar og þannig má áfram telja,“ segir Rósa en eiginleikar lífvirku efnanna í matvælavinnslu birtast meðal annars í auknu geymsluþoli, auk þeirra jákvæðu áhrifa sem neytandinn hefur af neyslunni.

„Hugmyndin með Marinox er að framleiða fæðubótarefni og innihaldsefni fyrir matvælaframleiðendur en einnig að þróa eigin framleiðsluvörur sem innihalda þessi jákvæðu lífvirku efni. Með UNA húðvörunum höfum við því stigið nýtt skref í ferlinu en rannsóknir á þörungum og lífvirkni efna í þeim munu halda áfram hjá okkur enda um að ræða mikla auðlind sem Íslendingar geta nýtt í framtíðinni,“ segir Rósa Jónsdóttir, fagstjóri.

IS