Fréttir

Íslenskt sjávarsalt bætir nýtingu saltfisks

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Íslendingar hafa lengi verið þekktir fyrir saltfiskframleiðslu sína, en hún hefur verið ein af undirstöðum íslensks efnahags, þrátt fyrir að saltið sé að mestu innflutt. Nýleg rannsókn bendir þó til þess að sé íslenskt salt notað til verkunarinnar, eykst nýtni vörunnar.

Söltun hefur verið ein helsta geymslu aðferð Íslendinga, ásamt þurrkun og súrsun um aldir. Hérlendis var þó oft erfitt að nýta söltunina þar sem talsverður skortur var á salti á Íslandi allt fram á 17. öld, þar sem hér var ekki nægileg þekking til staðar á vinnslu salts úr sjó. Hér er heldur ekki nægileg sól til sólþurrkunnar salts eins og þekkist víða erlendis. Því þurfti að flytja saltið inn og varð saltfiskverkun vinsæl hér á landi, eftir því sem aðgengi að salti jókst. Útflutningur á saltfisk hófst svo í kringum 1800 og fljótlega urðu Íslendingar meðal stærstu saltfiskframleiðanda í heimi og hefur hann síðan verið ein okkar mikilvægasta útflutningasvara og lengi vel undirstaða íslensk efnahags.

Neysla saltfisks byggir á gamalli hefð og er neyslan sérstaklega mikil í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku. Því er saltfiskverkun enn mikilvægur hluti af bolfiskvinnslu, þrátt fyrir að nútímatækni bjóði upp á aðrar geymsluaðferðir eins og kælingu eða frystingu. Ástæða þess eru þau sérstöku bragðeinkenni sem saltfiskur hefur og myndast við verkun hans þar sem lykt, útlit og áferð breytist.

Saltfiskur hefur mikið geymsluþol og byggir það helst á því að saltið dregur úr hlutfalli vatns í fiskvöðvanum sem hindrar vöxt örvera. Við saltfiskverkun er lykilatriði að nota hágæða matvælasalt, til að tryggja gæði vörunnar. Á Íslandi hafa verið gerðar tilraunir til að vinna salt innanlands og nýverið var unnin rannsókn hér hjá Matís í samstarfi við fyrirtækið Agnir ehf. og Orku- og tækniskóla Keilis, sem miðaði að því að nýta jarðsjó á Reykjanesi til að framleiða salt, sem meðal annars mætti nota við saltfisk framleiðslu. Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs Íslands.Aðferð var þróuð til að framleiða salt með með jarðhita á Reykjanesi. Þessi framleiðslu aðferð hentaði vel til að stýra efnasamsetningu saltsins, sem er einkar mikilvægt til að tryggja rétta verkun. Saltið sem unnið var úr jarðsjó var borið saman við innflutt salt frá Miðjarðarhafi við framleiðslu á söltuðum þorskflökum. Niðurstöður leiddu í ljós að hærri nýting fékkst í saltfiskverkun með salti unnu úr jarðsjó, ásamt því að verkunin tók styttri tíma þar sem upptaka salts í þorskvöðva var meiri í samanburði við innflutta saltið. Salt unnið úr jarðsjó var því algjörlega sambærilegt innfluttu salti að gæðum. Það sannast því enn og aftur að hér á Íslandi höfum við einstakar náttúruauðlindir sem við getum nýtt á sjálfbæran hátt, hreinleiki þeirra og gæði gera það einnig að verkum að þessar vörur eru fullkomlega samkeppnishæfar og eftirsóttar.