Fréttir

Fræðaþing landbúnaðarins 2010 18.–19. febrúar – Matís með mörg erindi

Fræðaþing landbúnaðarins verður haldið dagana 18.-19. febrúar 2010 í húsakynnum Hótel Sögu. Að venju býður Fræðaþingið upp á umfjöllun og miðlun á fjölbreyttu faglegu efni í mismunandi málstofum, en þessi vettvangur hefur í áranna rás þróast í að vera mikilvirkasta miðlunarleið fyrir niðurstöður fjölbreytts rannsókna- og þróunarstarfs í landbúnaði, auk þess sem á þinginu eru tekin til umfjöllunar ýmis málefni tengd atvinnugreininni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni.

Fræðaþingið hefst með athöfn í Súlnasal Hótel Sögu kl. 13:00 fimmtudaginn 18. feb. Þar mun Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setja þingið en í kjölfarið mun Þorsteinn Ingi Sigfússon hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda erindi um orkumál. Að því loknu mun Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, fjalla um fæðuöryggi og íslenskan landbúnað.

Eftir sameiginlega dagskrá í Súlnasal skiptist þingið upp í nokkrar málstofur þar sem fjölbreytt efni er á dagskrá. Þar má nefna sjálfbæra orkuvinnslu og nýsköpun í matvælavinnslu. Á föstudeginum heldur þingið áfram og hefst kl. 9:00 í fundarsölum Hótel Sögu. Þá verður m.a. þingað um erfðir, aðbúnað búfjár og vistfræði. Samhliða fyrirlestrum er veggspjaldasýning.

Fræðaþing landbúnaðarins er haldið árlega en að því standa Bændasamtök Íslands, Landgræðslan, Veiðimálastofnun, Skógrækt ríkisins, Matvælastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Hagþjónusta landbúnaðarins og Matís.

Mikill meirihluti erinda, sem flutt verða á Fræðaþinginu, er gefinn út í sérstöku prentuðu hefti sem þátttakendur á þinginu geta fengið og er innifalið í þátttökugjaldinu. Ennfremur verða velflest erindanna aðgengileg í Greinasafni landbúnaðarins á landbunadur.is. Greinasafnið geymir stóran hluta landbúnaðarfagefnis sem gefið hefur verið út á liðnum árum.

Hægt er að nálgast umfjöllun og dagskrá Fræðaþings á vef Bændasamtakanna, www.bondi.is

.


Meðal athyglisverðra fyrirlestra má nefna:
–        Möguleikar og hindranir í nýtingu lífrænna orkuauðlinda
–        Ræktun orkujurta á bújörðum
–        Hlývatnseldi á Íslandi
–        Tækifæri í ylrækt í matvælaframleiðslu
–        Þurrkað lambakjöt
–        Íslenska kúakynið, viðhorf neytenda og varðveislukostnaður
–        Skyldleiki norrænna hestakynja
–        Vistkerfi heiðatjarna
–        Þróunarfræðilegar breytingar við Mývatn
–        o.m.fl.

Öllu áhugafólki um fagmál landbúnaðar og náttúruvísindi, þar með töldum bændum, býðst að sækja þingið meðan húsrúm leyfir. Hægt er að skrá þátttöku á Fræðaþingið á vefnum www.bondi.is. Ráðstefnugjald er kr. 10.000 (innifalið fundargögn og kaffi/te) en nemar fá ókeypis aðgang gegn framvísun nemendaskírteinis.

Nánari upplýsingar veita:
Gunnar Guðmundsson, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0333 og 896-1073 eða á netfangið gg@bondi.is.
Tjörvi Bjarnason, Bændasamtökum Íslands, í síma 563-0332 og 862-3412 eða á netfangið tjorvi@bondi.is

Fréttir

Alíslensk kryddlegin söl

AVS verkefninu Vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum er nú lokið. Verkefnið snérist um að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Söl hafa verið nýtt á Íslandi frá landnámi. Sölvatekja var langmest sunnan- og vestanlands. Mjög mikil verslun var með sölin bæði frá Suðurlandi, Faxaflóasvæðinu og Breiðafirði. Neysla á sölvum hefur haldist fram á daginn í dag, en er aðeins brot af því sem áður var. Söl hafa vafalítið haft góð áhrif á heilsu þjóðarinnar, ásamt ætihvönn, fjallagrösum og skarfakáli. Eiginleikar sölvanna hafa lítið verið rannsakaðir t.d. næringargildi eða hæfileg verkun.

Íslensk hollusta ehf (áður Hollusta úr hafinu ehf) hefur verkað og selt söl undanfarin ár bæði fyrir innlendan markað og flutt svolítið út. Félagið hóf þróun á kryddlegnum sölvum árið 2006. Viðbrögð við vörunni hafa sýnt að um sérstaka og mjög áhugaverða vöru er að ræða. Kryddlegin söl voru fyrst kynnt á sýningunni Matur 2006. Síðan þá hefur varan verið seld í litlu magni til hótela og veitingahúsa. Þá hefur hún verið kynnt og seld á vörusýningu í Fífunni 2007 og á útimörkuðum undanfarin ár. Á kynningum hafa 80-90% þeirra sem prófuðu hana verið mjög hrifnir af henni.

Íslensk hollusta ehf. fékk Matís til samstarfs við sig til að ljúka vöruþróun á kryddlegnu sölvunum og styrk frá AVS til þess. Gerðar voru prófanir á marineringu í nokkrum algengum efnum þ.e. olíu, soja-sósu, ediki, mysu og saltpækli. Marienering svipuð því sem Íslensk hollusta ehf hafði notað reyndist best, en prófanir sýndu að verulega var hægt að bæta vinnsluferlið til að besta vöruna með tilliti til útlits, bragðs og geymsluþols. Kryddlegin söl eru nú áhugaverð vara með fallegt útlit og gómsætt bragð. Áhugavert verður að sjá hvernig markaðurinn tekur við þessari nýjung.

Íslensk hollusta ehf. (áður Hollusta úr hafinu ehf.) var stofnuð 2005. Félagið framleiðir ýmsar alíslenskar hollustuvörur, sem seldar eru á íslenskum heilsumarkaði, í ferðamannaverslunum og til innlendra og erlendra hótela og veitingahúsa. Í haust hlaut félagið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði samtaka iðnaðarins, sjóði Kristjáns Friðrikssonar í Últímu, fyrir frumlegar nýstárlegar, alíslenskar vörur.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Eyjólfi Friðgeirssyni, hollustaurhafinu@simnet.is og Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan ehf

Ákveðið hefur verið að setja á stofn félag til að halda ráðstefnur um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs. Félagið á ekki að vera hagsmunasamtök einstakra hópa og á ekki að vinna að hagsmunagæslu, heldur tryggja uppbyggilega umræðu og vera hvetjandi til góðra verka.

Ákveðið hefur verið að stofna Sjávarútvegsráðstefnan ehf. Stofnfundur félagsins verður haldinn þann 19. febrúar klukkan 15:30 í Verbúðinni – Víkin, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, 101 Reykjavík. Allir þeir sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða eru hvattir til að gerast hluthafar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Hlutverk félagsins er að halda árlega sjávarútvegsráðstefnu og er tilgangur hennar að:

  • stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og
  • vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi.

Hugmyndin að sjávarútvegsráðstefnunni er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn. Í dag eru ýmsar ráðstefnur og fundir innan sjávarútvegsins en þá yfirleitt tengt einstökum félögum, samtökum eða efni.

Markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Allir er láta sig málefni sjávarútvegsins varða geta tekið þátt í stofnun félagsins og mætt á stofnfund. Þeir sem hafa áhuga að vera hluthafar en geta ekki mætt vinsamlega sendið tölvupóst til Guðbrands Sigurðssonar (gs@nyland.is) eða Valdimars Inga Gunnarssonar (valdimar@sjavarutvegur.is)

Sjávarútvegsráðstefnan 2010

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan verður með vefinn www.sjavarutvegsradstefnan.is þar sem hægt verður að sækja dagskrá og aðrar upplýsingar í framtíðinni. Til að tryggja að sem flestir geti sótt ráðstefnuna verða fengnir aðilar til að styrkja ráðstefnuna með að markmiði að halda þátttökugjaldi í hófi.

Fréttir

Margir þættir hafa áhrif á kælingarhraða bolfiski

Í verkefninu Kælibót hefur Matís unnið að umfangsmiklum tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað ásamt íslenskum samstarfsaðilum sem tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar, allt frá hráefnismeðhöndlun, vinnslu og flutningi til markaðar.

Meðal markmiða var að bera saman kæligetu mismunandi ísmiðla, kæliaðferðir við vinnslu, áhrif mismunandi umbúða fyrir pökkun afurða og mismunandi flutningsleiðir (skip og flug) og áhrif bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða. Verkefnið er styrkt af AVS og Tækniþróunarsjóði Rannís. Samstarfsaðilar Matís í verkefninu eru Brim hf., Eimskip hf., Icelandair Cargo, Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf., Skaginn hf. og Tros. Verkefnið var einnig unnið samhliða Evrópuverkefninu Chill-on, sem styrkt er af 6. rammagerð Evrópusambandsins.

Rannsóknir á niðurkælingarhraða, geymsluhitastigi, hagkvæmni og orkunotkun við kælingu hráefnis gáfu vísbendingar um að besta verklag við kælingu á fiski sé að upphafleg niðurkæling um borð sé framkvæmd með vökvaís. Hinsvegar er æskilegast að geyma hráefnið til lengri tíma í hefðbundnum ís, einkum með tilliti til saltupptöku fiskvöðvans og örveruvaxtar. 

Kæling afurða í vinnslu er einnig afar mikilvæg því hún lágmarkar kæliþörf eftir að afurðir eru komnar í umbúðir. Skýringin á því er að einangrun umbúða getur hægt verulega á kælihraða þó að umhverfi sé við rétt hitastig. Kæling við vinnslu er því algert grundvallaratriði til að viðhalda ferskleikanum sem best og lengja geymsluþol við slíkar aðstæður. Í þessu sambandi næst bestur árangur með roðkælingu flaka. Roðkæling á flökum úr fersku hráefni getur lengt ferskleikatíma og geymsluþol um 25% miðað við bestu geymsluaðstæður (-1°C).Vökvakæling hefur minni áhrif á lengingu ferskleikatímans og getur jafnvel verið varasöm vegna hættu á krossmengun. Til að mynda er mjög mikilvægt að forðast vinnslu á eldra hráefni á undan nýrra hráefni við dagsframleiðslu til að lágmarka mengun flaka. Mengun flaka af völdum skemmdarörvera getur leitt til hraðari ferskleikarýrnunar og styttingar á geymsluþoli. Ef góðir framleiðsluhættir eru tryggðir, mengun haldið í lágmarki, t.d. með fullnægjandi endurnýjun á vökva og kælingu afurða, á vökvakæling að geta skilað góðum árangri. Verðmætaaukning fiskafurða getur náðst með því að framfylgja þessum ábendingum og velja flutningsleiðir sem lágmarka hitasveiflur snemma á líftíma vörunnar til að viðhalda ferskleikanum sem lengst.

Hitastig í flug- og skipaflutningi ferskra þorskhnakka var kortlagt í febrúar og mars 2009 frá Norðurlandi til Bremerhaven í Þýskalandi. Notaðir voru frauðplastkassar sem tóku hver um sig 5 kg af hnökkum. Hitasíritar voru notaðir til að fylgjast með vöru- og umhverfishita og rakasíritar mældu raka í umhverfinu.  Niðurstöður sýndu fram á mjög góða hitastýringu í skipaflutningnum.  Fyrstu vísbendingar á samanburði milli flutnings með flugi og skipi sýndu svipað heildargeymsluþol í dögum frá veiði hvor aðferðin sem var notuð. Í flugi eru meiri hitasveiflur en styttri tími frá framleiðanda á markað. Umbúðir og tími við hækkun hitastigs skipta hér verulegu máli. 

Samanburðarannsóknir á einangrunargildi tvenns konar pakkninga fyrir ferskan fisk, þ.e. bylgjuplasts og frauðplasts, hafa leitt í ljós yfirburði frauðplastsins í þessu tilliti. Mikilvægi einangrunarpakkninga er þó minna þegar um heilar brettastæður er að ræða frekar en staka kassa. Ef afurð er ekki vel forkæld fyrir pökkun er minni einangrun reyndar eftirsóknarverð en þá verður að tryggja að hitastýringin í flutningsferlinu sé mjög góð.

Ekki er óalgengt að afurðum sé gaspakkað erlendis þar sem líftími vöru er miðaður við pökkunardag. Því voru könnuð áhrif gaspökkunar og undirkælingar á geymsluþol þorskflaka úr misfersku hráefni. Álykta má af tilrauninni að mjög takmarkaður ávinningur sé af gaspökkun og undirkælingu ef hráefnið er gamalt. Hinsvegar, ef nýveiddum flökum er gaspakkað og þau geymd við bestu aðstæður í undirkælingu má ná fram mun lengra ferskleikatímabili og geymsluþoli og þar með mun verðmætari afurð heldur en með hefðbundinni pökkun. 

Gæta þarf að verklagi og umgengni um hráefni og fisk og gera þarf átak í meðhöndlun, vinnslu og flutningi fiskafurða til að tryggja betri gæði og verðmætari vörur. Þó að aukin gæði skili ekki alltaf meiri verðmætum strax, munu aukin gæði skila meiri árangri til framtíðar litið og eru miklir markaðslegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina. Ekki veitir af að byggja upp og styrkja ímynd Íslands og íslenskra afurða á þessum tímum.

Unnið er nú að uppsetningu hagnýtra leiðbeininga á veraldarvefnum fyrir kælingu og meðhöndlun á fiski á öllum stigum virðiskeðjunnar frá miðum á markað. Leiðbeiningarnar byggja á þeim rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið innan kæliverkefnanna Chill-on, Hermun kæliferla og Kælibót, auk annarra rannsókna. Niðurstöðum tilrauna verður miðlað á þann hátt að fyrirtæki geti auðveldlega hagnýtt sér upplýsingar og séu fljót að greina ný tækifæri til að bæta innanhúsferla. Upplýsingarnar verða því settar fram á einfaldan og myndrænan hátt. Vísað verður í ítarefni sem aðgengilegt verður á rafrænu formi fyrir þá sem vilja meiri og dýpri upplýsingar.

Til að byrja með verður mest áhersla lögð á vinnslu á bolfiski (þorski) í kældar afurðir en stefnt er að frekari uppbyggingu þar sem teknar verða inn fleiri fisktegundir og önnur matvæli og fleiri afurðaflokkar.

Nánari upplýsingar veitir María Guðjónsdóttir, maria.gudjonsdottir@matis.is.

Fréttir

Matís á Framadögum 2010

Framadagar 2010 verða haldnir í dag, miðvikudaginn 10. febrúrar í húsakynnum Háskólabíós.

Eins og áður má gera ráð fyrir mikilli þáttöku meðal nemenda þetta árið. Eru Framadagar því kjörin vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná til framtíðar starfskrafta þjóðarinnar með því að kynna sig og sína starfsemi og ná þannig fram ákveðnu forskoti á samkeppnis aðila í kappinu um hæfasta starfsfólkið.

Nánari upplýsingar má fá á www.framadagar.is og hjá Jóni Hauki Arnarsyni, jon.h.arnarson@matis.is eða Steinari B. Aðalbjörnssyni, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

Fréttir

Matís með góðan fund um síldarstofna í Norður-Atlantshafi

27. janúar sl. var haldinn góður fundur í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík. Þar komu saman margir af helstu sérfræðingum Norðurlandanna um síld og síldarstofna Norður-Atlantshafsins.

Fundurinn var hluti af verkefninu HerMix sem styrkt er af Ag-Fisk sjóðnum. Þátttakendur í verkefninu eru frá 7 stöðum.

  • Matís (Icelandic Food and Biothech R&D), Reykjavík, Iceland
  • Marine Research Institute (MRI), Reykjavík, Iceland
  • Faroese Fisheries Laboratory (FFL), Torshavn, Faroe Islands
  • University of the Faroe Islands (UFI), Torshavn, Faroe Islands
  • Institute of Marine Research (IMR), Bergen, Norway
  • Sildarvinnslan hf (SVN), Neskaupstaður, Iceland
  • The National Institute of Aquatic Resources (DTU-Aqua), Lyngby, Denmark
IMG_1035

Markmið verkefnisins er að geta aðgreint síldastofna í Norður-Atlandshafi með erfðafræðilegum aðferðum og kanna breytileika í efna- og vinnslueiginleikum afurðarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Hjörleifsdóttir, sigridur.hjorleifsdottir@matis.is.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

Fréttir

Transfitusýrumagn í matvælum er mjög breytilegt

Á árunum 2008 og 2009 voru gerðar hjá Matís fitusýrugreiningar á 51 sýni af matvörum í þeim tilgangi að uppfæra gögn í ÍSGEM gagnagrunninum um efnainnihald matvæla. Verkefnið var unnið í samstarfi við Lýðheilsustöð og Matvælastofnun.

Áhersla var lögð á að kanna magn trans-fitusýra í unnum matvælum og því voru tekin sýni af borðsmjörlíki, bökunarvörum, djúpsteikingarfeiti, mat frá skyndibitastöðum, ís, kexi, snakki og sælgæti.

Í næringarráðleggingum er mælt með því að fólk borði eins lítið af trans-fitusýrum úr iðnaðarhráefni og hægt er. Einnig er mælt með því að takmarka neyslu á mettuðum fitusýrum. Með þessu móti er hægt að draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Skortur hefur verið á upplýsingum um trans-fitusýrur í matvælum á íslenskum markaði en nú hefur að nokkru leyti verið bætt úr því.

Stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995. Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var.

Í öllum flokkum matvara greindust a.m.k. sum sýnanna með litlu sem engu af trans-fitusýrum og er það mikil breyting frá því sem verið hefur. Til dæmis var nær ekkert af trans-fitusýrum í þeim tegundum af kexi sem teknar voru til skoðunar. Þetta sýnir að matvælaiðnaðurinn hefur fundið leiðir til að framleiða afurðir án trans-fitusýra. Það greindist þó talsvert af trans- fitusýrum í nokkrum sýnum af smjörlíki, bökunarvörum, ís og poppkorni. Ljóst er að framleiðendur geta endurbætt þessar vörur og losað þær við trans-fitusýrur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það að víða erlendis hefur náðst góður árangur við að draga úr trans-fitusýrum í matvælum.

Niðurstöður fitusýrugreininganna eru teknar saman fyrir fitusýruflokka í töflu á næstu síðu.

Helstu niðurstöður mælinganna voru:
a.      Hlutfall trans-fitusýra í þeim matvælum, sem greind voru, hafði almennt lækkað frá árinu 1995 en þá var gerð stór rannsókn á fitusýrum í íslenskum matvælum.

b.      Í sýnum af kexi var mjög lítið af trans-fitusýrum (undir 0,8% af fitusýrum). Í sýnum af sælgæti var lítið af trans-fitusýrum (undir 2% af fitusýrum). Í sýnum af mat frá skyndibitastöðum voru trans-fitusýrur undir 3,5% af fitusýrum.

c.       Í sýnum af borðsmjörlíki, bökunarvörum, jurtaís, smjörlíki og snakki voru matvörur frá sumum framleiðendum með mikið af trans-fitusýrum en í sýnum frá öðrum framleiðendum var magn þessara fitusýra óverulegt. Þetta sýnir að vel er framkvæmanlegt að framleiða þessi matvæli án trans-fitusýra.

d.      Merkingar á umbúðum stóðust ekki í öllum tilfellum fyrir þær vörur sem voru til skoðunar. Umbúðir fyrir eitt kexsýnið bentu til þess að trans-fitusýrur væru í kexinu þar sem tilgreind var jurtafeiti hert að hluta. Það reyndist hins vegar ekki rétt, kexið var laust við trans fitusýrur.

Í Danmörku er hámarksgildi fyrir transfitusýrur úr iðnaðarhráefni 2% af öllum fitusýrum. Hlutfallið er undir þessum mörkum fyrir 27 vörumerki og tegundir safnsýna af alls 42 eða 64% af öllum vörumerkjunum og tegundum safnsýna.

Rétt er að benda á að  þótt transfitusýrum sé útrýmt úr ákveðnum fæðutegundum þá er ennþá sá möguleiki fyrir hendi að varan innihaldi mettaða fitu og það ef til vill í miklu magni.

Þótt magn trans-fitusýra sé almennt ekki merkt á umbúðir matvæla geta neytendur samt dregið vissar ályktanir af innihaldslýsingum. Ef jurtaolía er eina fituhráefnið má reikna með að matvælið innihaldi ekki trans-fitusýrur og tekist hafi að halda mettuðum fitusýrum í lágmarki. Sérstaklega ætti að huga að þessu í innihaldslýsingum fyrir brauð, kökur og kex. Hafa þarf í huga að kókosfeiti og pálmafeiti eru harðar feitmetistegundir úr jurtaríkinu og innihalda mikið af mettuðum fitusýrum. Ef fita hert að hluta (partially hydrogenated) kemur fyrir í innihaldslýsingu má gera ráð fyrir trans-fitusýrum. Hert fita er hins vegar ekki sönnun þess að trans-fitusýrur séu í vörunni en gera þarf ráð fyrir talsverðu af mettuðum fitusýrum.

Heildarniðurstöður úr ofangreindri rannsókn munu innan tíðar birtast í ÍSGEM gagnagrunninum.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Niðurstöður fitusýrugreininga á matvælum 2008 og 2009 (pdf skjal).

Fréttir

Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis ehf.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

FRÉTTATILKYNNINGNýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis

Ísafjörður / Reykjavík, 4. Janúar 2010─ Lækningavörufyrirtækið Kerecis ehf. og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins (NSA) tilkynntu í dag um undirritun fjárfestingarsamnings. Samningurinn var undirritaður þann 30.12.2009. Samkvæmt samningnum mun NSA kaupa 35% í Kerecis í formi hlutafjár og jafnframt veita fyrirtækinu lán með breytirétti. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum næstu 12 mánuði og eru áfangagreiðslur háðar framgangi þróunarverkefna Kerecis.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins. Starfsmenn og stofnendur Kerecis hafa áralanga reynslu í þróun á lækningavörum og klínískri þróunar– og prófunarvinnu.

Markaður fyrir lækningavörur („medical devices“) á heimsvísu er geysistór og hafa nokkrir íslenskir aðilar haslað sér völl á þessum markaði og má þar nefna Össur hf, Mentis Cura, Nox Medical, Oxymap, Kine og fyrirtækið Primex. Kerecis mun einbeita sér að vöruþróun fyrir þann hluta lækningavörumarkaðarins sem snýr að meðhöndlun á sköðuðum vef („tissue engineering“).

Ummæli:
Dr. Baldur Tumi Baldursson, læknir, meðstofnandi og yfirmaður lækningasviðs Kerecis:
Tækni Kerecis byggir á hagnýtingu á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Frumathuganir félagsins benda til þess að tæknin henti mjög vel til meðhöndlunar á vefjaskemmdum í mönnum og með aðkomu Nýsköpunarsjóðs komum við til með að geta hleypt af stokkunum klínískum prófunum á vörum okkar strax í upphafi árs 2010.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdarstjóri, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins:
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki einsog Kerecis.  Við höfum mikla trú á fyrirtækinu þarna koma saman reyndir stjórnendur og góðir vísindamenn sem sjá markaðstækifæri í fyrir lækningarvöru byggða á íslenskri þekkingu og íslensku hráefni.

Það er okkar von að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við Kerecis og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins.

Um Kerecis ehf.
Kerecis ehf. (www.kerecis.is) er þróunar- og framleiðslufyrirtæki á sviði lækningavara og byggir tækni sína á próteinum unnum úr fiski. Fyrirtækið vinnur í náinni samvinnu við heilbrigðisstéttir og vinnur að þróun á tækni til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

Um Nýsköpunarsjóð
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (www.nsa.is) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins. 

Frekari upplýsingar:
Guðmundur F. Sigurjónsson
Stjórnarformaður Kerecis ehf.
Sími 8494960
gfsigurjonsson@kerecis.com

Helga Valfells
Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins
Kringlunni 7, 103 Reykjavík 
sími / tel: 510 1800 fax: 510 1809   
gsm nr.: 861 0108  
helga@nsa.is
www.nsa.is

Fréttir

Greiningartími styttur úr 3 dögum niður í 5 klst.!

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur hjá Matís doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Hefst: 15/01/2010 – 13:00

Lýkur: 15/01/2010 – 15:00

Staðsetning viðburðar: Askja

Nánari staðsetning: Stofa 132 (stóri salurinn)

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands:
Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða.
Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.

Fresh view in fish microbiology.
Analysis of microbial changes in fish during storage, decontamination and curing of fish, using molecular detection and analysis methods.

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“ Andmælendur verða Dr. Paw Dalgaard vísindamaður frá Tækniháskólanum í Danmörku og Dr. Guðni Ágúst Alfreðsson prófessor við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Guðmundur Hreggviðsson fagstjóri hjá Matís. Dr. Sigurður Snorrason, forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar mun stjórna athöfninni sem fer fram í Öskju og hefst kl. 13.

Í verkefninu voru skemmdarferlar fiskafurða skoðaðir með notkun sameindalíffræðilegra aðferða til að skoða samsetningu og breytingar á örveruflórunni við geymslu og verkun fiskafurða. Fyrsti hluta verkefnisins beindist að þróun hraðvirkra greiningaraðferða á óæskilegum bakteríum s.s Salmonella og bakteríum sem valda niðurbroti matvæla (skemmdarbakteríur). Með nýju aðferðafræðinni er greiningatíminn styttur úr 3 dögum niður í 5 klst. sem getur komið að góðum notum við eftirlit og gæðastýringu í matvælaframleiðslu. Í öðrum hlutanum var komið inn á hreinlæti og þrif í fiskvinnslu þar sem virkni hefðbundinna þrifaferla til fjarlægingar á örveruþekjum voru kannaðir. Tekið var tillit til mikilvægra þátta í ferlinu s.s. hitastigi skolvatns, styrkleika hreinsiefna og gerð yfirborðs. Örveruþekjur myndast iðulega við matvælaframleiðslu og því er mikilvægt að þrifaferlar komi í veg fyrir að þær nái fótfestu til að tryggja bæði öryggi og gæði framleiðslunnar. Í þriðja hlutanum er fengist við spurningar um samsetningu bakteríusamfélaga við geymslu á fiski þar sem dæmi eru tekin af þremur fiskitegundum. Þorskur og ýsa eru dæmi um beinfiska á meðan skata er flokkast til brjóskfiska. Ýmsir beinfiskar eru mikilvægir nytjastofnar og hafa því hlotið meiri athygli þegar kemur að rannsóknum á örverufræði þeirra og skemmdarferlum. Í þessum hluta er sýnt fram á og staðfest að Photobacterium phosphoreum er sú bakteríutegund sem oftar en ekki nær yfirhöndinni við geymslu á þorski og ýsu við mismunandi aðstæður. Með notkun ræktunaraðferða og sameindalíffræðilegra greininga er framvindu örverusamfélaga við kæsingu á skötu lýst og sýnt fram á viðveru áður ólýstra bakteríutegunda í umtalsverðu magni í þessu sérstæða umhverfi.

Doktorsefnið er Eyjólfur Reynisson, fæddur 1977. Hann lauk BS-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2001 og M.Sc.-gráðu í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla tveimur árum síðar. Síðan þá hefur Eyjólfur starfað á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem gekk inn Matís ohf. – Matvælarannsóknir Íslands. Þar hefur hann unnið verkefnið sitt að stærstum hluta. Eyjólfur er kvæntur Lilju Logadóttur og eiga þau 3 börn.

www.hi.is

Fréttir

Helmingur bæjarbúa á námskeiði!

Fyrir stuttu hélt Matís námskeið á Suðureyri fyrir fiskvinnsluna Íslandssögu og Klofning. Námskeiðið fór fram á 4 tungumálum og voru um 120 þátttakendur sem er hátt í helmingur af íbúafjölda Suðureyrar.

Á námskeiðinu var m.a. fjallað um gæði fisks, fiskvinnslu og hreinlæti.

Namskeid_Sudureyri
Frá námskeiðinu á Suðureyri.

Mikil ánægja var með námskeiðið og var talað um að upplýsingarnar myndu nýtast starfsmönnum mjög vel.

Námskeiðið endaði með hófi fyrir starfsmenn þar sem fyrirtækin Íslandssaga og Klofningur urðu 10 ára 6. desember sl.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson, margeir.gissurarson@matis.is.

Nánar um námskeið sem eru í boði hjá Matís: www.matis.is/freadsla/namskeid/

IS