Fréttir

Matís stendur fyrir ráðstefnu: Kjarn- og rafeindaspunarannsóknir í matvælaiðnaði

Ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science verður haldin í Norræna húsinu í Reykjavík dagana 15.-17 september næstkomandi á vegum Matís ohf.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (e. Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag saman ásamt þátttakendum frá iðnaðinum og víðar. Að þessu sinni er lögð áhersla á notkun tækninnar í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna mikla möguleika og kosti þessarar tækni fyrir íslenskum rannsóknamönnum og iðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þær breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnu verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi.  Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma +354 422 5091 (María Guðjónsdóttir). 

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.

Fréttir

Dregur mjög úr magni trans-fitusýra – nákvæmum fitusýrugreiningum lokið á Matís

Hjá Matís ohf hefur verið lokið við nákvæmar fitusýrugreiningar á 30 sýnum af matvælum á íslenskum markaði til samanburðar við eldri niðurstöður, en stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995.

Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var, en þó greindist talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af ákveðnum vörum. Í næringarráðleggingum er mælt með því að fólk borði eins lítið af trans-fitusýrum úr iðnaðarhráefni og hægt er. Einnig er mælt með því að takmarka neyslu á mettuðum fitusýrum. Með þessu móti er hægt að draga úr líkum á hjartasjúkdómum.

Greiningarnar voru að þessu sinni framkvæmdar með nýjum gasgreini Matís en hann býður upp á mjög nákvæmar greiningar. Greindar voru 46 fitusýrur og voru þar á meðal trans-fitusýrur en þær voru nú í fyrsta skipti greindar hjá Matís. Áður hefur þurft að senda sýni erlendis til greininga á trans-fitusýrum.

Fitusýrugreiningar voru gerðar á smjörlíki, bökunarvörum, kexi, ís, snakki, sælgæti og mat frá skyndibitastöðum. Sýnin voru tekin í júní 2008. Athugunin náði ekki til mjólkurvara og nautgripa- og lambaafurða sem innihalda lítið eitt af trans-fitusýrum frá náttúrunnar hendi. Ekki voru heldur tekin með ýmis matvæli sem innihalda jurtaolíur og því engar trans-fitusýrur en meðal þessara matvæla eru ýmis brauð og kökur.

Fyrir alla flokka framangreindra matvæla greindust a.m.k. sum sýnanna með litlu sem engu af trans-fitusýrum og er það mikil breyting frá því sem verið hefur. Til dæmis var nær ekkert af trans-fitusýrum í þeim tegundum af kexi sem teknar voru til skoðunar. Þetta sýnir að matvælaiðnaðurinn hefur fundið leiðir til að framleiða afurðir án trans-fitusýra. Það greindist þó talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af smjörlíki, bökunarvörum og ís. Ljóst er að framleiðendur geta endurbætt þessar vörur og losað þær við trans-fitusýrur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það að víða erlendis hefur náðst góður árangur við að draga úr trans-fitusýrum í matvælum.

Stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995. Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var. Í sumum tilfellum er breytingin mjög mikil, svo sem fyrir kex, Ljóma smjörlíki og franskar kartöflur.

Í meðfylgjandi töflu eru niðurstöður teknar saman fyrir flokka fitusýra. Taflan sýnir hlutföll fitusýra en ekki magn þeirra. Hlutfall trans fitusýra er í flestum tilfellum mjög lágt. Í Danmörku er hámarksgildi fyrir trans-fitusýrur úr iðnaðarhráefni 2% af öllum fitusýrum. Hlutfallið er undir þessum mörkum fyrir 17 sýni af 30. Önnur 7 sýni eru með trans-fitusýrur á bilinu 2-4,2%. Talsvert af trans fitusýrum greindist í 6 sýnum, um er að ræða smjörlíki, bökunarvörur og ís.

Ljóst er af niðurstöðunum að matvælaiðnaðurinn er í auknum mæli farinn að nota fullherta fitu án trans-fitusýra og fljótandi jurtaolíur í stað hálfhertrar fitu sem leiddi til þess að trans-fitusýrur voru í afurðunum. Á seinustu árum hafa orðið framfarir í herslu á fitu þannig að leitast er við að herða sem mest af ómettuðum fitusýrum (þar með töldum trans-fitusýrum) í mettaðar fitusýrur. Það er því ekki lengur hægt að draga þá ályktun að trans-fitusýrur séu í matvælum þegar hert fita er tilgreind í innihaldslýsingunni. Aftur á móti er ljóst að trans fitusýrur er að finna þegar merkt er hálfhert fita eða fita hert að hluta (partially hydrogenated). Það er galli við notkun á fullhertri fitu að hún leggur til mettaðar fitusýrur en það er ótvíræður kostur að trans-fitusýrurnar eru ekki lengur til staðar. Notkun á jurtaolíum er að því leyti heppilegri að þær innihalda mikið af einómettuðum og fjölómettuðum fitusýrum.

Niðurstöðurnar sýna að jurtaolíur eru notaðar í sumar bökunarvörur, borðsmjörlíki, kartöflusnakk og mat frá skyndibitastöðum. Af innihaldslýsingum er einnig ljóst að mikið er farið að nota jurtaolíur í brauð og kökur. Það á þó ekki við um allar bökunarvörur, af öllum sýnum mældist mest af trans fitusýrum í kleinum. Úr þessu er hægt að bæta með því að velja steikingarfitu án trans fitusýra.

Smellið hér til að skoða töflu með niðurstöðum fitusýrugreininga á matvælum á íslenskum markaði í júní 2008.

Fréttir

Ferskleikamat á fiski á nokkrum sekúndum – kynning hjá Matís á nýjum tækjabúnaði

Kynning verður á nýjum tækjabúnaði sem framkvæmir ferskleikamat á fiski, í húsakynnum Matís að Borgartúni 21 kl. 10:00, föstudaginn 12. september. Sequid nefnist tækið en með því má mæla hvort fiskurinn hafi verið frystur einu sinni eða tvisvar, og eins hvort hann er í raun ferskur eða þiðinn, og fá hlutlaust mat á gæðum hráefnisins á fáeinum sekúndum.

Þróun búnaðarins var framkvæmd af hópi vísindamanna frá Wefta löndum Evrópu og var Sequid búnaðurinn nýlega settur á markað. Nú býðst íslenskum áhugamönnum um gæðamat á fiski tækifæri á að sjá kynningu á nýjustu tækni í þessum efnum.

Fréttir

QALIBRA-fundur í Reykjavík; Evrópuverkefni undir stjórn Matís ohf.

Dagana 3. og 4. september var haldinn verkefnafundur í Evrópuverkefninu QALIBRA í Reykjavík.

QALIBRA, eða “Quality of Life – Integarted Benefit and Risk Analysis. Web-based tool for assessing food safety and health benefits,” skammstafað QALIBRA (Heilsuvogin á íslensku), er heiti Evrópuverkefnis, sem heyrir undir Priority 5, Food Quality & Safety í 6. Rannsóknaráætlun ESB. Um að ræða þriggja og hálfs árs verkefni sem Matís ohf stýrir.  Verkefnistjóri er Helga Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri á Matís.

Markmið QALIBRA-verkefnsins er að þróa magnbundar aðferðir til að meta bæði jákvæð og neikvæð áhrif innihaldsefna í matvæum á heilsu manna. Þessar aðferðir munu verða settar fram í tölvuforriti sem verður opið hagsmunaaðilum á veraldarvefnum.

Þátttakendur í verkefninu eru frá Íslandi, Bretlandi, Hollandi, Grikklandi, Portúgal og Ungverjalandi.

Fréttir

Forverkefni með ensímmeðhöndlun á lifur lokið á Matís – niðurstöðurnar lofa góðu

Á Matís er lokið forverkefni sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði Rannís í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-W ehf. Grindavík. Verkefnið fjallaði um ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu. Markmið verkefnisins var að auka arðsemi við niðursuðu á lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða.

Markmiði verkefnsisins var náð með því að þróa og prófa tækni sem fjarlægir himnu og hringorma af yfirborði lifrar með ensímum. Einnig var þróuð aðferð til pækilsöltunar á lifur fyrir niðursuðu í stað þess að setja salt beint í dósir með hráefninu, eins og gert er í dag.

Niðurstöður verkefnisins lofa góðu þar sem tókst að fækka hringormum í lifur um 80%, og mýkja himnuna verulega. Tilgangurinn með því að fjarlægja eða mýkja himnuna sem umlykur lifrina var sá að með því fæst betri og jafnari skömmtun í dósir og nýtingin eykst, auk þeirrar hagræðingar í vinnsluferlinu sem af því hlýst. Hægt er að fækka stöðugildum við hreinsun á lifrinni, ásamt því að auka afköstin um 100%, með þessari aðferð. Fengist hefur styrkur frá AVS til að vinna frekar að þessum málum.

Afrakstur og ávinningur verkefnisins felst aðallega í nýrri tækni við fjarlægingu á lifrarhimnu og hringormum, sem leiðir til endurbætts verklags og hagræðingar í vinnslunni. Pækilsöltun á lifur fyrir niðursuðu leiðir af sér betri og jafnari gæði á afurð. Í kjölfarið eykst virðisauki á niðursoðinni lifur sem skapar aukið verðmæti sjávarafurða bæði fyrir fyrirtækið og þjóðina í heild.

Verkefnisstjóri er Ásbjörn Jónsson, sérfræðingur hjá Matís.

Fréttir

Heimsókn frá Japan til Matís

Á morgun, fimmtudaginn 4. september, fær Matís til sín góða gesti. Það er 11 manna sendinefnd frá Hokkaido-eyju í Japan sem kemur hingað til lands á vegum METI, en það er skammstöfun fyrir Ministry of Economics, Trade and Industry. Hópurinn mun kynna sér starfsemi Matís, einkum líftæknisvið fyrirtækisins, og fer móttakan fram í húsnæði Líftæknisviðs að Gylfaflöt 5, Grafarvogi. Þar verða kynnt fyrir þeim ýmis verkefni sem Matís hefur unnið að undanfarið ásamt því sem fyrirtækið verður kynnt í víðara samhengi.

Auk þess að heimsækja Matís mun hópurinn kynna sér starfsemi MS, bæði í Reykjavík og Selfossi, ásamt því að heimsækja Bændasamtökin, Útflutningsráð og Japanska sendiráðið.

Sendinefndina skipa eftirtaldir:

Mr Mitsuo Izumi, Chief Technical Officer and Factory Director, Hokkaido Milk Product Co.,Ltd.
Mr Yoshinori Okada, Senior Managing Director, Obihiro Shinkin Bank.
Mr Takuma Kameda, Associate Plant Manager, NAGANUMA Ice CO.,LTD.
Mr Makoto Kawakami, Supervisor Livestock Product Section, Hokkaido Food Processing Research Center
Mr Toshio Sato, CEO, Managing Director, BETSUKAI NYUGYO KOUSYA CO., LTD.
Mr Hideyuki Nagasawa, President, National University Corporation Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine
Mr Yohsinoru Nagata, Deputy Director General, Hokkaido Food Processing Research Center
Mr Tadashi Nagamura, Senior Assistant Professor, National University Corporation Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine
Mr Hiroshi Nishino, Director International Exchange Department, Institute for International Studies and Training
Mr Toshihiro Hirahata, Deputy-Director International Affairs Division Industries Department, Hokkaido Bureau of Economy, Trade and Industry Ministry of Economy, Trade and Industry
Mr Kiyoshi Yamaguchi, Director Administration Bureau, National University Corporation
Obihiro University of Agriculture and Verterinary Medicine.

Fréttir

Góðir gestir hjá Matís: Joint Research Center í heimsókn

Þann 27. ágúst sl. tók Matís á móti 7 manna hópi frá Joint Research Center (JRC) en Sameiginlega Rannsóknamiðstöðin – JRC – samanstendur af nokkrum rannsóknarmiðstöðvum sem fjámagnaðar eru af 7. Rammaáætlun og ætlað er að styðja við stefnumótun, þróun og framkvæmd stefnumála Evrópusambandsins. Móttakan fór fram í húsnæði Líftæknisviðs Matís, Prokaria, að Gylfaflöt í Grafarvogi.

Hópurinn kynnti sér starfsemina og fékk til þess kynningu á fyrirtækinu frá Sjöfnu Sigurgísladóttur, forstjóra Matís, og einnig kynningu á Líftæknisviði frá Ragnari Jóhannssyni, sviðsstjóra. Að kynningunum loknum leiddi Ragnar hópinn um húsnæðið, sýndi þeim rannsóknarstofur Líftæknisviðsins og sagði nánar frá helstu þáttum starfseminnar. Að lokum kom hópurinn saman í matsal fyrirtækisins og tók óformlegt spjall, en líflegt, ásamt því að njóta léttra veitinga.

Hópinn sem heimsótti Matís að þessu sinni skipuðu meðal annarra: Elke Anklam, forstjóri Heilbrigðis- og neytendamálastofnunar EU, Roger Hurst frá Orkustofnun EU, Frank Raes frá stofnun um umhverfismál og sjálfbærni innan EU, og Thomas Barbas frá stofnun um öryggi og verndun þegna innan EU.

Fréttir

Ráðstefna um notkun kjarnspunatækni í rannsóknum á matvælum í september

Dagana 15.-17 september n.k. verður ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science haldin í Norræna húsinu í Reykjavík. Það er Matís sem hefur veg og vanda af undirbúningi hennar. Að sögn Maríu Guðjónsdóttur, sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar hafa tæplega 100 manns, víðs vegar að úr heiminum þegar boðað þátttöku sína á ráðstefnuna.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag, saman ásamt þátttakendum frá matvælaiðnaði og fleirum. Að þessu sinni verður lögð áhersla á notkun þessarar tækni í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna þá miklu möguleika og kosti sem þessi tækni býr yfir fyrir íslenskum rannsóknamönnum og matvælaiðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þeim breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnunni verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi. Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Þess má geta að síðast þegar ráðstefnan var haldin, sem var í Nottingham í Englandi í júlí 2006, var Maríu boðið að flytja fyrirlestur um verkefnið “Low field NMR study of the state of water at superchilling and freezing temperatures and the effect of salt on freezing processes of water in cod mince” sem hún kynnti á veggspjaldi og var valið eitt af fjórum áhugaverðustu veggspjöldum ráðstefnunar.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma 422 5091 (María Guðjónsdóttir).   

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.

Fréttir

Matís á Landbúnaðarsýningunni á Hellu 22.-24. ágúst

Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin glæsileg og viðamikil landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst 2008. Matís mun á sýningunni kynna ýmis landbúnaðartengd verkefni sem fyrirtækið vinnur að.

Ennfremur munu þeir framleiðendur lambakjöts fá upplýsingar um könnun um áhuga á samstarfi í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt, sem kynnt var á ytri vef Matís fyrr í vikunni.

Loks gefur Matís krökkunum glaðning sem ætti að gagnast í skólanum, sem hefst víðast hvar í næstu viku.

Þeir sem eiga erindi austur fyrir fjall ættu því að staldra við og fylgjast með hrútaþukli og taka þátt í töðugjöldum og, koma við á sýningarbás Matís.

Fréttir

Hangikjöt: Sambærileg vara og Parmaskinka, San Daniels og Serrano?

Matís er að undirbúa verkefni um reykt og þurrkað lambakjöt og óskar eftir samvinnu við lítil, staðbundin fyrirtæki vegna þróunar reyktra og þurrkaðra afurða úr lambakjöti. Loftþurrkað lambakjöt ætti að skipa sama sess og loftþurrkuð skinka (s.s. Parma, San Daniels og Serrano) gerir í Suður-Evrópu.

Matís kannar áhuga framleiðenda á að vera með í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt. Verkefnið skiptist í tvennt, annars vegar fræðslu og vöruþróun sem snýr að staðbundinni matvælaframleiðslu og matarferðamennsku á Íslandi og hins vegar samstarf við aðila í Færeyjum og Noregi um þróun á loftþurrkuðum/reyktum afurðum úr lambakjöti.

Fyrsti hluti verkefnisins er greiningu á stöðu mála á Íslandi, þ.e. úttekt á því hversu margir eru að framleiða eða hafa áhuga á að framleiða reykt og/eða þurrkað kindakjöt og að átta sig á þörfinni og áhuga á fræðslu, ráðgjöf og samstarfi um vöruþróun og kynningu/markaðssetningu á þessum afurðum.

Sem hluti af verkefninu hefur nú verið útbúin könnun sem hefur það markmið að kanna hver áhugi er á og núverandi staða framleiðsla á loftþurrkuðu lambakjöti er hér á landi. Matís hvetur alla sem að hafa áhuga á málefninu að taka þátt. Könnunin verður opin til þátttöku til 5. september.

IS