Fréttir

Afurðir Margildis markaðssettar í Asíu

Tengiliður

Valur Norðri Gunnlaugsson

Fagstjóri

valur.n.gunnlaugsson@matis.is

Margildi og Matís, ásamt erlendum samstarfsaðila, vinna nú að stuttu samstarfsverkefni þar sem verið er að kanna markaðsaðstæður fyrir fiskolíu Margildis í Asíu með aðstoð AVS sjóðsins. Markmið verkefnisins er að kanna og vinna markað fyrir afurðir Margildis í Asíu og verður Víetnam markaður notaður sem tilraunamarkaður þar sem lýsið verður markaðssett hjá þarlendri heilsuvörukeðju. Kröfur neytanda, hefðir og regluverk verða kortlögð ásamt því sem greiðsluvilji verður metinn með þarlendum aðilum. 

Margildi er sprotafyrirtæki sem hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullhreinsa lýsi til manneldis úr uppsjávartegundunum loðnu, síld og makríl. Nú þegar hafa afurðir Margildis (http://fiskolia.com/) verið kynntar fyrir rýnihóp í borginni Nha Trang og voru viðbrögðin jákvæð og fengust gagnlegar upplýsingar sem munu nýtast við áframhaldandi markaðsstarf. Nokkur hefð er fyrir neyslu á omega-3 afurðum í Víetnam, en hingað til hefur neyslan að mestu verið á formi hylkja. Það hefur komið þeim Víetnömum skemmtilega á óvart hversu bragðmild Fiskolían frá Margildi er og hefur hún fallið vel í kramið hjá þeim sem hafa prófað að neyta hennar í tiltekinn tíma.

Fulltrúar Margildis og Matís munu í næsta mánuði heimsækja væntanlega samstarfsaðila í Víetnam til að vinna að frekari markaðsmálum, en einnig hafa aðilar frá Kína sýnt afurðum fyrirtækisins mikinn áhuga.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita Snorri Hreggviðsson hjá Margildi og Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.

IS